Nú var loks sól þegar við vöknuðum en ekki rigning og voru stúlkurnar himinlifandi þegar þær komu í matsalinn og sáu það, spenntar að komast út í öðru en stigvélum og regnjökkum.

Líkt og aðra morgna var hefðbundin morgundagskrá – fánahilling, biblíustund og brennó.  Farið er að færast fjör í leikinn og spennan mikil í brennókeppninni um hvaða lið mun standa uppi sem sigurvegari.

Í hádegismat var dýrindis pastasalat og þegar allar höfðu borðað sig vel saddar var boðið upp á valfrjálsar stöðvar.  Hægt var að velja um að:
* Mála í með akrýl í íþróttahúsinu – mögnuð sköpun og hugmyndaríki sem stúlkurnar sýndu þar.
* Föndra fyrir leynivin – hægt að perla, gera vinabönd, vefa á greinar, teikna eða annað sem hugurinn bauð.
* Göngutúr niður að læk í góða veðrinu.

Nýbakaðar bollur og bleik rósakaka voru á boðstólnum í kaffitímanum og eftir kaffi tók við undirbúningur fyrir lokakvöldið.  Fóru öll herbergi í pottinn í sól og sumaryl (eða sturtu) og gátu þær sem vildu í framhaldinu farið í hágreiðslu hjá foringjum og aðstoðarforingjum.  Lokahönd var lögð á vinagjafir og leikið úti í sólinni.  Fyrir hátíðarkvöldverðinn klæddu allar stúlkurnar og starfsfólkið sig í sitt fínasta púss, áður en gengið var inn í fallega skreyttann matsalinn.  Fengu stúlkurnar pizzu líkt og þær gátu í sig látið og ávaxtafrostpinna í eftirrétt.

Nú var svo komið að lokakvöldvökunni þar sem foringjar buðu upp leikhúsveislu áður en haldið var inn í síðasta bænaherbergi flokksins og vildu bæði stúlkurnar og bænakonur þeirra hafa góðan tíma þetta síðasta kvöld til að spjalla.

 

LOKADAGUR flokksins er nú runninn upp og ótrúlegt hvað þessir dagar eru alltaf fljótir að líða.  Eftir morgunmat og fánahyllingu var pakkað niður og byrjað að undirbúa heimföt.  Að biblíustund lokinni var úrslitaleikurinn í brennókeppninni.  Sigurlið mótsins keppti svo við foringjana og var leikurinn vægast sagt æsispennandi, þar sem bæði lið áttu einn leikmann og konginn eftir – en svo lauk að foringjarnir náðu naumum sigri.   En brennó var alls ekki búin, því nú koma að því að allar stúlkurnar kepptu við foringjana og eftir skemmtilegan leik hrósuðu foringjarnir naumum sigri.  Heyrðist í nokkrum stúlkunum að þær ætluðu sko að vinna á næsta ári.

Eftir mikil hlaup og spennu í brennó var pylsu – grillpartý úti á stétt fyrir framan húsið og fengu stúlkurnar afhenta tie-dye bolina sina.   Gaman var að sjá alla litadýrðina á þessum flottu bolum.  Minnum á að þvo þá eina í vél, án þvottaefnis, í fyrsta sinn.

Hátíðarstund var í kvöldvökusalnum, þar sem söngur og gleði réð ríkjum.  Afhending viðurkenninga og leynivina gjafir afhentar.  Áður en haldið var út í rútu áttu stúlkurnar smá kveðjustund með sinni/sínum bænakonum.  Þegar í rútuna var komið hélt fjörið áfram með söng, spjalli og hinum sívinsæla leik Varúlf.

Þegar þetta er ritað eru allar stúlkur komnar í faðm fjölskyldunnar eftir viðburðaríkadaga í Ölver.  Viljum við starfsfólkið í flokknum þakka þessum frábæru stúlkum fyrir flokkinn.  Megið þið vera stolt af þeim og voru þær allar til fyrirmyndar, afskaplega kurteisar og þakklátar fyrir allt sem fyrir þær var gert og með þeim gert.

Sjáum þær vonandi sem flestar að ári
starfsfólk listaflokks

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72177720300025160/