Dagur 1 – Komudagur

Hæ hæ, komið sæl, ég heiti Rósa og verð forstöðukona í Leikjaflokki 1, dagana 27.júní – 1.júlí. Aldur stúlknanna í hópnum er 8 – 10 ára. Góður dagur byrjaði í gær þar sem full rúta af glöðum stúlkum héldu upp í Ölver. Frábær hópur sem lofar góðu. Með mér í liði þessa daga er Gríma Katrín ráðskona, sem sér um að elda dýrindis mat fyrir okkur og Guðbjörg, Akranesbúi, sem er alveg ferlega góður bakari. Þær eru búnar að dekra við okkur hér síðan við komum. Einnig eru með í för hressir og skemmtilegir foringjar og aðstoðarforingar. Allt saman alveg yndislegar manneskjur. Börnum líður vel, og mikið eru þær góðar og skemmtilegar 🙂

Við komuna í gær um hádegisbilið beið okkar skyr og brauð í ofni með osti og pizzasósu, ljúffengt sko! Rétt áður settust allar stúlkurnar inn í matsal, þar sem farið var yfir nokkrar reglur og praktísk atriði, raðað niður í herbergi og farið í göngutúr um svæðið.

Eftir það var staldrað við á fótboltavellinum, farið í nafnaleiki og fleiri skemmilega útileiki.

Í kaffinu fengu þær Jógúrtköku (spcialitat frá Ölveri) með súkkulaðibitum og kanilsnúða. Allt nýbakað og verður svo út flokkinn,  alveg sérlega ljúffengt og alveg yndislegt að finna bökunarlyktina strax að morgni.

Eftir kaffið var farið út í íþróttahús þar sem farið var yfir brennóreglurnar og þær fengu aðeins að æfa sig.  Síðan í göngutúr að leiksvæði þar sem farið var í fleiri nafnaleiki, og stelpurnar sögðu í leiðinni aðeins frá sér hvert áhugmál þeirra væru og slíkt.

Í kvöldmat var ljúffengur djúpsteikur fiskur, kartöflubátar, salat og kokteilsósa.

Eftir kvöldmat dulbjuggu foringjarnir sig og földu sig úti, komið var að bænakonuleit, en með þessari uppákomu gafst tækifæri til að leita að og finna bænakonu hvers herbergis. Stelpurnar þurftu að finna réttan foringja með því að spyrja hann nokkurra spurninga. Þetta var vinsælt, en bænakonan er sú sem er með þeim á herberginu rétt áður en þær sofna. Þar eru sögur lesnar, beðnar bænir og hver stelpa fær tækifæri til að kynnast sínum herbergisfélögum betur.

Þá var komið að fyrstu kvöldvökunni þar sem var sungið, beðið og hlustað á hugleiðingu, auk þess sem tvö herbergi voru með skemmtiatriði, leikrit og leiki á kvöldvökunni. Ég sá um hugleiðingu kvöldsins og sagði ég þeim sögu af að Guði þætti vænt um alla menn og að við værum allar vinkonur í Ölveri, þær fengu meira að segja smá nammi frá mér, sem var hluti af hugleiðingunni.

Í kvöldhressingu var boðið upp á appelsínur og banana.

Síðan var haldið inn á herbergin, háttað, burstað og komið sér fyrir.

Dagur 2
Fyrsta nóttin gekk ágætlega og dagurinn byrjaði vel.  Hressar stúlkur mættu í morgunmat og hefðbundna morgundagskrá sem felur í sér fánahyllingu, tiltekt á herbergjum, biblíulestur og brennó-mót. Á Biblíulestarstundinni, sem er samvera í salnum okkar þá sagði ég þeim frá Kristrúnu, konunni sem stóð fyrir stofnun Ölvers. Ég notaði tækifærið og skipti stelpnahópnum upp í tvennt, en það er gaman að í flokknum eru margar frá Borgarnesi og Akranesi ásamt svo Reykjavík, nágrenni þess og Selfossi. Á þessari skiptingu ætla ég svo að byggja leiki og sögur á morgun og leyfa þeim að kynnast enn betur, þvert á herbergin, þannig að allir geti átt tækifæri að kynnast og leika saman. Út allan flokkinn er brennó-mót á hverjum morgni. Í lok flokksins keppir síðan sigurliðið við foringjana.

Í hádegismat var boðið upp á dýrindis hakk og spaghetti ásamt niðurskornum gúrkum og paprikum.

Strax eftir hádegismat fóru aðstoðarforingjarnir með stelpunum í alls konar leiki þar sem í boði var að hlaupa um svæðið, perla og gera vinabönd. Þar næst fóru fram hinir vinsælu Ölversleikar. Þar hlupu herbergin sem eitt lið á milli ýmissa stöðva sem voru staðsettar úti, grettukeppni, stígvélakast, sippukeppni og fleira.

Í kaffinu var boðið upp á geggjað flotta súkkulaðiköku skreytta með bleiku smjörkremi, maður heyrði ópin í stelpunum langar leiðir þegar þær báru kökuna augum. Með þessu var boðið upp á Ölversbollur, smurðar með smjöri og osti.

Eftir kaffi er svo pottaferð, en hér í Ölveri er heitur pottur beint fyrir utan hús og fær hvert herbergi ca. 20 mín.í pottinum, þar sem sungið verður, leikið og haft gaman. Á meðan hvert herbergi er í pottinum ætla stelpurnar að bjóða upp á dekurherbergi, hárgreiðslu, nudd, naglalakk og bara það sem þeim dettur í hug að bjóða upp á, einnig kósíherbergi o.fl. Mjög vinsælt.

Nú fer brátt að líða að kvöldmat. Í matinn verður Hrísgrjónagrautur, og ef ég þekki krakkana rétt, verður ekkert eftir af risastórri uppskrift, þetta er eitt af því vinsælasta 🙂 Eftir matinn er svo skemmtileg kvöldvaka handan við hornið, þar ætla tvö herbergi að sjá um leikrit og leiki, sungnir verða ýmsir hreyfisöngvar, fallegir Ölverssöngvar og Messíana foringi ætlar að vera með hugleiðingu þar sem sagt verður m.a. frá bíblíusögunni um Miskunnsama Samverjann.

Góðar kveðjur til ykkar, frá okkur í Leikjaflokki 1 2022 í Ölveri 🙂

Rósa Jóhannesdóttir, forstöðukona