Stórgóður dagur að baki í gær í yndisfögru veðri. Við morgunverðarborðið lærðu stelpurnar fagran morgunsöng en hér er mikið sungið alla daga. Stelpurnar syngja undurvel og það er gaman að kenna þeim ný lög. Ég starfa einnig sem tónlistarkennari svo hér er bara sungið mikið. Syngjandi glaður leikjaflokkur 🙂
Í morgunmat fengu þær hafragraut, súrmjólk, kornflex og/eða cerios. Að því loknu var fánahylling og tiltekt á herbergjum. Þær eru bara orðnar svaka duglegar í því að laga til hjá sér og búa snyrtilega um rúmin sín.
Á Biblíulestrarstundinni sagði ég þeim frá því að Biblían væri í raun margar bækur og að það væri ansi langt síðan hún var skrifuð. Þær fengu Nýja-testamentið í hönd og við lærðum að leita að ritningarstöðum og versum og æfðum einnig upplestur. Ég kenndi þeim tvo nýja söngva, Myndin hennar Lísu og Við erum dropar.
Eftir stundina var svo haldið út í íþróttahús í brennóleiki. Í hádegismat var boðið upp á grænmetisbuff, sósu, salat og kúskús. Eftir matinn fórum við í göngutúr niður að á sem er hér rétt hjá og stelpurnar busluðu aðeins í köldu vatninu, enda heitt og indælt veður í lofti.
Í kaffitímanum var boðið upp á ljúffenga norska teköku og pizzasnúða. Eftir kaffi var hæfileikasýning þar sem mörg skemmtileg atriði voru sýnd. Stelpurnar duglegar að æfa fyrir þetta á undan. Mjög gaman.
Í kvöldmat var boðið upp á kalt pastasalat sem rann ljúflega niður hjá öllum.
Á kvöldvökunni var mikið sungið, herbergin sýndu skemmtileg leikrit og farið var í leiki. Síðan var sagan af Góða hirðinum sögð. Eftir stundina fórum við niður í laut, sungum kvöldsönginn okkar, áttum notalega stund í góða veðrinu og fengum grillaða sykurpúða.
Þreyttar og duglegar hnátur fóru síðan í háttinn.
Bestu kveðjur úr Ölveri.
Rósa forstöðukona.