Frábær dagur að baki. Veisludagurinn sjálfur.

Eftir hefðbundin morgunstörf var það samvera í salnum. Þar töluðum við um hin ýmsu vers og t.d.ritningarvers eins og fermingarbörn velja sér. Hvernig Bíblían er öll full af versum. Fórum einnig með Faðir vorið og Trúarjátninguna, en aðstoðarforingjarnir fóru með síðari bænina sem stelpunum þótti mjög löng, og að foringjarnir væru duglegir að muna þetta allt utanbókar. Brennó var svo á sínum stað eftir stundina.
Í hádegismat fengu stelpurnar dýrindis tómatsúpu með snakki og sýrðum rjóma út í og einnig quizadilla með, tómata-flatbrauð. Eftir hádegismat fór fram hárgreiðslukeppni,en þar mátti nota hugmyndaflugið og skreyta hár. Flestir völdu að skreyta með blómum, og útkoman varð dásamleg. Dómarar voru fengnir á svæðið, “Gluggagægir og Justin Bieber”
Í kaffinu fengu stelpurnar hinar rómuðu Ölversbollur og einnig litríkt skreyttar bollakökur. Eftir kaffið var komið að pottaferð herbergjanna, en það var geysivinsælt. Eftir pottaferðir fóru stelpurnar í spariföt / betri fötin og tveir foringjar, Messíana og Gunnhildur og Andrea aðstoðarforingi stóðu í ströngu við að flétta allar stelpurnar. Velgreiddar stelpur mættu síðan í velskreyttann matsalinn á Veislukvöldið. Þar var boðið upp á pizzur og djús.
Eftir kvöldmat fór fram kvöldvaka, þar var sungið mikið og foringjarnir sýndu leikhæfileika sýna að þessu sinni og rifjuðu upp öll helstu og skemmtilegustu leikritin. Þetta höfðu stelpurnar mjög gaman af og mikið var hlegið. Poppi og djúsi var síðan laumað til þeirra sem Gríma ráðskona og Guðbjörg bakari höfðu látið í bolla fyrir hvern og einn. Á meðan poppið var maulað og drukkið djús með, var haldið áfram með kvöldvökuna og sögð var sagan af honum Sakkeusi. Eftir kvöldvökuna fóru stelpurnar niður í matsal. Þar beið þeirra kvöldhressing, appelsínur og epli og einnig var búið að hengja upp blað þar sem nöfn allra okkar sem dvelja hér í 4.flokki sumars var ritað á blað eða blöð, og stelpunum gafst kostur á að skrifa eitthvað jákvætt og fallegt um alla hér.
Það var farið pínu seint í háttinn, en þreyttar og góðar stelpur lögðust sáttar á koddann sinn.
Bestu kveðjur héðan,
Rósa og starfsgengið í Ölveri