Æðislegur gærdagur sem endaði með svaka trompi!
Stelpurnar voru vaktar kl 9:00 með háværri tónlist því foringjarnir ákváðu að hafa smá rugldag og allar voru sendar út í brennibolta í náttfötunum!
Eftir brennó var fáninn dreginn niður og svo aftur upp, þær fengu grjónagraut en ekki hafragraut í morgunmat og brauð með áleggi.
Svo var komið að stuttum Biblíu lestri þar sem við sungum mikið og flettum í nýja testamentinu. Eftir tiltekt fengu þær svo dýrindis mexíkóska súpu í hádegismat og einhver skrítin Grýla kíkti líka í smá heimsókn og var aðeins að hrekkja stelpurnar yfir matartímanum. Það var æðislegt veður, svo þær fóru í langan göngutúr eftir mat og fengu svo kaffitímann í íþróttahúsinu þegar þær komu tilbaka þar sem einn foringinn fór að kostum og sýndi miklar listir yfir bleikum og gulum Ölversbollum.
Eftir kaffið var þeim öllum smalað í matsalinn þar sem forstöðukonan var með fullt af tilkynningum en það skemmtilegasta var þegar hún sagði þeim að næsti dagskráliður væri pottur og brjóstsykursgerð!
Í kvöldmatinn fengu þær svo fiskibollur með bláum hrísgrjónum sem þær voru allar mjög spenntar að smakka!
Kvöldvakan var svo trufluð af engum öðrum en Albus Dumbledore og lét þær vita hvað væri búið að gerast og hvað þær þyrftu að gera. Þær fengu það verkefni að finna Ron, Hermione og Harry Potter til þess að geta unnið leikinn en Voldemort og vitsugur voru á eftir þeim og gátu sent þær í Azkaban ef þau náðu þeim.
4 stelpur náðu að vinna leikinn og voru þær ótrúlega sáttar með það! En eftir leikinn fórum við allar inn úr rigningunni og fengum töfraseyði Snape að drekka ásamt ávöxtum, rice krispies köku og kex.
Þær fóru allar þreyttar en glaðar að sofa. Seinustu stelpur voru að sofna um 1 leytið þannig við ákváðum að leyfa þeim að sofa hálftíma lengur í morgun og þær voru allar mjög ánægðar með það.
Stuð kveðjur úr Ölveri,
Fanney forstöðukona