Brjáluð rigning og rok vakti liðið í morgun en það var í lagi því það var sól og sumar í Ölvers húsinu!
Foringjarnir eyddu nóttinni í að skreyta allt húsið með blómum, uppblásnum stranddýnum og allskonar Hawaiian hlutum. Það kom stelpunum aldeilis á óvart þegar þær skriðu fram úr og sáu hvað væri í vændum.
Yfir morgunmatnum var þeim tilkynnt að það væri komið sumar og við ætluðum sko alls ekki að láta neina rigningu stoppa okkur og þær mættu klæða sig í sumarlegasta outfittið sitt. Margar stelpur voru sáttar með rigninguna því það þýðir að lúsmýin lætur ekki sjá sig því nokkrar stelpur eru greinilega með betra blóð en aðrar og fá virkilega að kenna á því.
Eftir Biblíulestur, brennó og hádegismat var komið að sumar dagskránni, þar sem stelpunum var skipt upp í 4 hópa og áttu að flakka á milli stöðva.
Fyrsta stöð var dans stöð þar sem þær dönsuðu við sumarlög, önnur stöð var tattoo stöð og vinabönd, þriðja stöð var lita og teikna allt sem minnir á sumar og seinasta stöðin var ströndin þar sem var spilað strandar video og þær fengu að fara í fótabað og fá sumardrykk. Eftir kaffi var komið að lang þráðum Top model dagskrálið! Þá fá stelpurnar ákveðið langan tíma til þess að breyta einni stelpunni í herberginu í ofur model en mega bara nota fyrirfram ákveðna hluti. Að því loknu var haldin tískusýning fyrir allar stelpurnar.
Á kvöldvöku lék Skógarver leikrit fyrir alla og stóðu sig allar með prýði en þegar stelpurnar ætluðu svo að fara syngja lokalagið ruddist einn foringi inn og byrjaði strax með dólg því hún vildi meina að stelpurnar í hennar bænaherbergi væri sko lang bestar og miklu betri en hinar og út frá því byrjaði svakalegt rifrildi á milli allra foringja sem forstöðukonan þurfti að stoppa og rífa þær frá hvor annari og sagði þessa frábæru línu sem gerði alla mjög spennta “Það er bara ein leið til þess að útkljá þetta…. BRENNÓ KEPPNI Á MILLI HERBERGJA MEÐ BÆNAKONUNNI” Allar stelpurnar hlupu út í miklum hamagang og skemmtu sér sko konunglega! Eftir ofur spennandi riðlakeppni á milli herbergja stóð Lindarver uppi sem sigurvegarar og komu allar stelpurnar inn í matsal og fengu vöfflur og banana í verðlaun fyrir góða keppni.
Stelpurnar fóru sáttar og sælar upp í rúm og hlakka mikið til að sjá hvað við gerum næst…

Sumar kveðjur úr Ölveri,
Fanney forstöðukona