Stelpurnar voru vaktar með blíðlegri tónlist í morgun og fóru þær allar strax framúr að tannbursta og klæða sig.
Eftir morgunmat var komið að fánahyllingu og eftir það tók við tiltekt.
Á Biblíulestri var mikið sungið og haft gaman og eftir brennibolta var komið að snemmbúnum hádegismat því það kom stór skemmtileg tilkynning frá foringjum!
Við tilkynntum þeim að stelpunum yrði skipt niður í hópa og einn hópurinn ætlaði að horfa á málningu þorna, annar labba niður að læk og fylla fötur af köldu vatni og koma með þær tilbaka og hinir hóparnir ætluðu að fara niður í laut og týna kindakúk og svo fara út og týna steina. Stelpurnar voru nú ekki sérlega spenntar fyrir þessu EN allt í einu var blastað tónlist og tveir foringjar hlupu inn í matsal í sundbolum og tilkynntu þeim að við værum að fara í sund!! Brjáluð fagnaðarlæti sem heyrðust líklega til allra sumarbústaðana í grendinni þegar þeim var tilkynnt þetta. Allar stelpurnar hlupu inn í herbergi og pökkuðu sundfötum niður og svo fórum við í rútuna þar sem bókstaflega öll Ölverslögin voru sungin alla ferðina.
Við fórum í sund að Hlöðum sem er sundlaug hér í Hvalfirði og við áttum hana útaf fyrir okkur svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það var mikið stuð.
Við tókum með okkur 2 hátalara og var ég ásamt einum öðrum foringja á bakkanum að stjórna tónlist og sundleikfimi. Stelpurnar skemmtu sér konunglega ofaní lauginni með partýtónlist og tóku þær sig allar til, hoppuðu uppúr og gáfu mér blautasta knús sem ég hef fengið á ævi minni.
Eftir sund borðuðum við kaffitíma á meðan við biðum eftir rútunni.
Þegar upp í Ölver var komið voru margar þreyttar svo við ákváðum að hafa kósý stemmingu upp í sal þar sem þær sem vildu fengu fléttur í hárið og niðri var hægt að perla og lita.
Í kvöldmatinn fengu þær steiktan fisk og kartöflubáta sem féll mjög vel í kramið, svo lét allt í einu sólin sjá sig svo við kvöttum þær til þess að fara út á meðan starfsfólk borðaði.
Á kvöldvöku var mikið hlegið yfir leikritum frá Fuglaveri og Hlíðarveri enda allar upprennandi leikkonur. Þegar kvöldvakan var að fara ljúka var einn foringinn ekki sáttur með það… Hún vildi sko meira og heimtaði náttfatapartý vol.2. Allar stelpurnar voru sko til í það enda dönsuðu nánast allar og svitnuðu það mikið að við þurftum að senda nokkrar í sturtu, þar með talið nánast alla foringjana. Náttfatapartýið endaði á grilluðum sykurpúðum og söng á stéttinni.
Ég held að allar stelpurnar munu sofa mjög vært í nótt eftir annansaman partýdag.

 

Hér er hægt að skoða myndir úr flokkinum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720300319328/with/52194485926/

Partý kveðjur úr Ölveri,
Fanney forstöðukona