Algjörlega meiriháttar dagur að kvöldi kominn.
Stelpurnar fengu að sofa örlítið lengur í morgun enda nauðsynlegt þar sem margar voru þreyttar eftir partýstandið í gær.
Á Biblíulestri lásum við bókina “Þú ert frábær” og töluðum við um hvað við værum fullkomnar eins og við erum og að við séum fullkomin sköpun Guðs.
Það ríkti algjör þögn á meðan ég las söguna og fannst öllum stelpunum mjög skemmtilegt að hlusta á þessa sögu.
Í brennó var hörð keppni og komst í ljós að Kjartan vann mótið enda unnu þær alla leikina sem þær kepptu.
Í hádegismat fengu þær pastasalat sem þeim fannst æðislegt og strax eftir matinn vorum við að fara í frægu Ölversleikana!
Herbergin keppa sem sagt saman og keppast í allskonar þrautum sem reyna á þol, úthald, ímyndunarafl, andlitsvöðva, sköpunarhæfileika og útsjónarsemi.
Þeim fannst keppnin ekkert smá skemmtileg og voru margar leiðar yfir því að það væru ekki fleiri stöðvar.
Í kaffitíma fengu þær smurt brauð, ávexti og súkkulaðibitaköku og fór svo fyrsta herbergið strax í pottinn og fengu hin herbergin að fara koll af kolli.
Eftir pott fengu þær stelpur sem vildu fléttur í hárið og fóru þær allar í fínustu fötin sín og komu inn í matsal þegar dinglað var í kvöldmat og var þá búið að skreyta hann frá toppi til táar. Stelpurnar fengu pizzu í matinn en þær sem vildu ekki pizzu fengu afgang af steiktum fisk og voru þær stelpur sjúklega ánægðar með það.
Á kvöldvöku fengu foringjar að láta ljós sitt skína, enda margar sjúkar í athyggli og elska að láta stelpurnar hlæja og léku þær leikrit fyrir þær.
Eftir mörg uppklöpp enduðum við kvöldvökuna á Ölverslaginu 2022 og svo fóru þær niður í kvöldkaffi og fengu þar ávexti og mjólkurkex.
Stelpurnar voru mjög fljótar að sofna eftir að foringjar fóru inn í bænaherbergin sín.
Þeim hlakkar mikið til að fá foreldraknús á morgun en kveðjurnar verða erfiðar því þær eru búnar að vera yndislegar alla vikuna og okkur hlakkar til að sjá þær allar aftur á næsta ári.
Síðasta kveðjan úr Ölveri,
Fanney forstöðukona