Unglingadísirnar eru mættar á svæðið! Langflestar eru alvanar staðnum en þó nokkrar sem eru að koma í fyrsta skipti.
Stelpurnar byrjuðu á því að koma sér fyrir, allar vinkonur saman í herbergi og hingað til eru allir alsælir með herbergin sín og herbergisfélaga.
Eftir að allir voru búnir að búa um sig og fá sér hádegismat fór allur hópurinn út í leiki þar sem áhersla var lögð á að læra nöfn allra í flokknum, ótrúlegt en satt að þá er starfsfólkið búið að læra öll nöfn stelpnanna í hópnum og það strax á fyrsta degi. Þar sem við ætlum að búa svona margar saman næstu vikuna langar okkur að geta kallað á hver aðra með nafni og það helst frá fyrsta degi svo það hefur gengið vonum framar.
Þegar stelpurnar voru að ljúka við kaffihressingu birtust þrjár óþekkjanlegar konur sem dönsuðu og löbbuðu í takt við tónlist. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar stelpurnar komust að því hvað þær væru að fara að gera, það var komið að Ölver‘s Top Model. Leik/keppni sem snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu, hver hópur fékk pappakassa, fötu, kaffifilter, tennisspaða, ruslapoka, band og skæri. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr ruslapokunum en þær mega aðeins nota það sem þær fengu afhent. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar búið var að mynda alla hópa og taka hönnunina út af dómurum fengu stelpurnar smá frjálsan tíma.
Stelpurnar voru svangar eftir daginn og borðuðu mjög vel í kvöldmatnum, ráðskonunni til mikillar gleði.
Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði í kvöld þar sem starfsfólkið sá um skemmtiatriði fyrir hópinn og fékk ágætt lof fyrir, og að sjálfsögðu var einnig mikið sungið líkt og tíðkast á kvöldvökunum hér í Ölveri. Eftir kvöldvökuna voru stelpurnar enn í fullu fjöri og því ágætt að dagskráin var svo sannarlega ekki búin. Stelpurnar fengu smá kvöldhressingu og græjuðu sig fyrir svefninn, náttföt og tannburstun, svo hélt starfsfólkið partýinu gangandi og henti í NÁTTFATAPARTÝ! .. Þvílíka stemningin! Það var mikið dansað og mikið sungið og massa stuð á öllum hópnum.
Stelpurnar voru þreyttar eftir daginn og því komst fljótlega ró í húsið.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Hádegismatur: Grænmetisbuff og salat
Kaffi: Smurt brauð og subwaykökur
Kvöldmatur: Sænskar kjötbollur og heimagerð kartöflumús
Kvöldkaffi: Ávextir