Stelpurnar voru vaktar með tónlist í morgun (kl. 09:30) og við áttum frekar hefðbundinn og góðan morgun. Tókum til í herbergjunum okkar, áttum krúttlega morgunstund og spiluðum brennó.

Eftir hádegismat var komið að smá gönguferð þar sem við vitum hve mikilvægt það er að fá smá hreyfingu og súrefni. Hópurinn labbaði saman að Stóra-Steini og fór þar í nokkra leiki áður en það var farið aftur upp í Ölver.

Eftir kaffitímann var komið að hæfileikakeppni. Stelpurnar fengu hálftíma til að æfa atriði og svo mættu dómararnir á svæðið. Hópurinn kom starfsfólkinu svo sannarlega á óvart… þvílík hæfileikabúnt!

Í framhaldinu var þeim sem vildu boðið upp á sturtur og pott. Flestar fóru í pottinn en aðrar vildu aðeins fara í sturtu en flestar voru fegnar að fá að fríska sig aðeins við fyrir kvöldið.

Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði og sá eitt herbergi um leikherbergi og hlaut, sem áður, mikið lof fyrir. Eftir kvöldvökuna var stelpunum boðið að færa sig niður í matsal en búið var að breyta uppsetningunni í salnum og dimma andrúmsloftið aðeins. Hópurinn fór svo í leik sem er kallaður „Mafía“ og sumir þekkja undir nafninu „Varúlfur“ en leikurinn reynir mikið á sköpun, leiklist og útsjónasemi hópsins. Þegar hópurinn hafði unnið sig í gegnum leikinn var þeim boðið að græja sig í útiföt þar sem búið var að stilla upp varðeld úti á plani. Við áttum mjög notalega stund saman úti þar sem við sungum, grilluðum sykurpúða og borðuðum ávexti.

Þegar inn var komið gerðu stelpurnar sig klárar fyrir svefninn og starfsfólkið settist fram á gang og söng þangað til ró var komin yfir hópinn og flestar sofnaðar.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

 

Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Hakk og spaghetti
Kaffi: Skinkuhorn, jógúrtkaka og ávextir
Kvöldmatur: Steiktur fiskur
Kvöldkaffi: Ávextir, sykurpúðar og kex