Stelpurnar okkar fengu að sofa aðeins út í dag og voru vaktar um kl. 10:00. Þegar allar voru komnar á fætur fengu þær smá næringu og fóru svo strax í að taka til og græja sig fyrir daginn. Í framhaldi af því áttum við smá morgunstund saman og spjall. Eftir morgunstundina var komið að brennó, mikil spenna fyrir leikjum dagsins og mikill æsingur. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir hvað þær eru ótrúlega duglegar að hvetja hver aðra, algjörlega aðdáunarvert.

Eftir hádegismat var ákveðið að fara í leiki uppi í kvöldvökusal. Veðrið er ekki alveg að vinna með okkur í dag og því tilvalið eiga stund saman inni og reyna að eyða smá orku í leiðinni.

Hópurinn hefur mikið kallað eftir því að fá að halda hárgreiðslukeppni og því var ákveðið að slíta leikjastundinni með því að setja hárgreiðslukeppni en tilkynnt var að dómarar myndu láta sjá sig og taka listina út í kaffitímanum.

Eftir kaffitímann bjuggum við um okkur í kvöldvökusalnum og horfðum saman á bíómynd. Það var mikill hamagangur í gær og því tilvalið að eiga rólegan og huggulegan dag í dag.

Á kvöldvökunni voru tvö herbergi sem sáu um skemmtiatriði, bæði herbergin voru með frumsamið leikrit og leik og líkt og áður fengu bæði herbergin einróma lof fyrir! Þegar hópurinn var að syngja kvöldsönginn fór starfsfólkið að týnast út úr salnum… hvað var að gerast? Inn í salinn komu svo tveir búningaklæddir starfsmenn og stelpurnar voru fljótar að þagna og bíða eftir fyrirmælum… Starfsmennirnir  virtust vera að byrja karmelluspurningakeppni en það var eitthvað skrítið í loftinu, það var eins og það væri eitthvað annað í gangi líka!! Þegar keppnin var komin af stað óðu tveir starfsmenn inn klæddir í vinnugalla… tilkynntu þeim að nú væru þær ekki lengur í sumarbúðunum Ölver heldur væru þær staddar ævintýralandinu Ölver. Búið var að breyta svæðinu í eitt stórt ævintýri! Stelpurnar löbbuðu í hópum hér á milli húsa, stoppuðu við í bústaðnum, inni í íþróttahúsi og á nokkrum stöðum í gistiskálanum. Þær hittu hinar ýmsu verur og karaktera á leiðinni. Hópurinn endaði svo í kvöldpotti og sturtum en þegar stelpurnar komu upp úr fengu þær kvöldkaffi og fóru svo í að hátta og bursta.

Langur dagur að baki hjá okkur og stelpurnar algjörlega búnar á því svo þær voru einstaklega fljótar að sofna.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Kjúklingaréttur a la Fanney
Kaffi: Ölversbollur og heimagerð möndlukaka
Kvöldmatur: Pítu hlaðborð
Kvöldkaffi: Ávextir