Jæja kæru foreldrar og forráðamenn, þá er dagur að kveldi kominn í sumarbúðum Ölvers og ævintýrið heldur betur hafið! Andrúmsloftið í rútunni titraði af eftirvæntingu og gleði, og tísti í þeim af spenningi þegar rauða fagra Ölver birtist í fjarska við rætur Hafnarfjalls.
Við komum allar saman í matsalnum þar sem ég sem forstöðukona bauð stelpurnar hjartanlega velkomnar og fór yfir praktísk mál. Þetta er stórt heimili sem við sköpum saman næstu 6 daga. Það er svo notalegt þegar við lifum í takt og sköpum andrúmsloft vinsemdar og virðingar. Þá kynntu foringjar og aðstoðarforingjar sig og skiptu stelpunum í herbergi. Allar vinkonur eru saman í herbergi og þær sem komu stakar smella inn í hópinn. Einhverjar hafa haft orð á að upplifunin sé strax farið fram úr væntingum! Þær komu sér fyrir í herbergjum og eru búnar að gera sínar vistaverur notalegar og kósý. Þá var hringt inn í hádegismat, þar sem þær fengu að kynnast Ölvers-hefðinni að syngja söng fyrir matinn og þakka fyrir sig með fallegu kalli á eftir. Það er mikil stemning að fagna saman! Þær gæddu sér á skyri og pítsabrauði, sem rann ljúflega niður.
Eftir mat var frjáls tími til þess að kanna svæðið í góða veðrinu og aðeins að lenda á nýjum stað. Svo fóru foringjarnir með þeim í göngutúr í sól og sumaryl og kynntu þær fyrir þessu frábæra landi sem Ölver stendur á – því það hefur upp á ýmislegt að bjóða. Inni í íþróttahúsi var farið yfir reglurnar í Brennó og farið í æfingaleik, en á hverjum morgni er farið í Brennó og er keppt á milli liða út vikuna. Svo var haldið niður í laut þar sem við fórum í nokkra nafnaleiki til að kynnast betur og eftir það í nokkra skemmtilega útileiki þar sem við fengum að sprikla svolítið, fíflast og hafa gaman. Þá var komið að síðdegissnarli og við tókum sprettinn inn í hús, þar sem ráðskona og bakari buðu upp á banana, tebollu og kanilsnúð. Hvílík sæla að vera í sumarbúðum! Eins og okkar frábæru foringjar gera svo vel – þá skelltu þær sér í búning og karakter, tóku léttan leikþátt fyrir stelpurnar sem fylgdust með af forvitni og eftirvæntingu. Fagnaðarlæti brutust út þegar tilkynnt var að nú væri komið að Ölvers Top Model, þar sem hverju herbergi var úthlutað gúmmíhanska, badmintonspaða, stórum plastpoka, garni og kaffifilter, og þeim var frjálst að fara út og finna skraut í náttúrunnu líka. Forningjarnir umbreyttu matsalnum í tískuhús með áhorfendabekkjum og rauðum dreglum. 45 mínútum síðar birtust stelpurnar með sína fyrirsætu sem brugðu sér baksviðs á meðan hópurinn klappaði dómnefndina upp. Dómararnir voru að sjálfsögðu mjög miklar týpur, glens og grín á hverju strái. Með stemningstónlist undir gengu fyrirsæturnar dregilinn, skelltu sér í gírinn og sameinuðust svo með sínum hóp í myndatöku og viðtal hjá dómnefnd. Magnaður sköpunarkraftur hjá þessum stelpum og gaman að sjá hvernig þær unnu úr hráefninu á sinn einstaka hátt!
Eftir það var frjáls tími, þar sem í boði var að fara út að leika, í boltaleiki í íþróttahúsinu eða gera vinabönd í salnum. Þetta gaf foringjunum tækifæri á að vera með stelpunum í smærri hópum og kynnast þeim betur. Í kvöldmat fengu stelpurnar pítu og fylltu þær með alls kyns gómsætu áleggi. Þær borðuðu vel og lagðist máltíðin heldur betur vel í mannskapinn. Þá fengu þær frjálsan tíma og fóru þær flestar út að leika í kvöldsól og blankalogni. Næst var haldið upp í sal á kvöldvöku þar sem við sungum söngva hástöfum og dönsuðum með. Svo buðu foringjarnir upp á bráðfyndnar leiksýningar og skellihló salurinn yfir leikhæfileikum og fíflagangi. Einn foringjanna deildi svo með stelpunum sinni sögu úr Ölveri frá því hún var lítil stelpa og snart frásögnin alla djúpt sem á heyrðu.
Og þá var loks komið að stórri stund – að finna Bænakonuna sína! Hvert herbergi fær úthlutaðan foringja sem fylgir þeim inn í ró og hvíld eftir daginn, og hefur svona extra auga með sínum stelpum í gegnum dagana. Bænakonurnar voru þá búnar að klæða sig upp í furðulegustu búninga og fela sig hér og þar um svæðið. Sum herbergin fundu sína konu hið snarasta og var líkt og þær væru með innri radar sem leiddi þær beinustu leið á felustaðinn, en önnur herbergi fóru í heljarinnar leitarleiðangur og fundu loks sína Bænakonu, við mikil fagnaðarlæti. Þær sem vildu gæddu sér á appelsínubátum og eplabitum, og svo var farið í náttföt og að bursta tennur.
Í allan dag hefur húsið ómað af glaðværum röddum og tiplandi tám. Þær eru svo sælar að vera mættar til leiks og við starfsfólkið í skýjunum að fá að vera saman og skapa ævintýralega upplifun fyrir stelpurnar næstu daga. Nú eru stelpurnar komnar í háttinn, sáttar, saddar og sælar og ró hefur færst yfir húsið. Við höfum allar haft í ýmsu að snúast í dag – það eru plástrar, blóðnasir, gömul mýbit, kynnast nýjum herbergisfélögum – í bland við fögnuð, þakklæti og forvitni. Við búum svo vel hér í Ölveri að vera með þaulvant starfsfólk sem mætir stelpunum af góðvild og hjálpsemi, og alveg dásamlegt að sjá hvernig andrúmsloft virðingar og vináttu vex með hverri stundinni.
Með hlýju í hjarta,
Áróra