Það er alltaf sérstaklega erfitt að kveðja unglingaflokk.
Heimfarardagurinn gekk mjög vel fyrir sig, stelpurnar voru ágætlega duglegar að pakka saman dótinu sínu í morgun og taka til í herbergjunum. Starfsfólkið velti því þó fyrir sér í smá stund hvort þær væru hugsanlega viljandi að tefja heimför… Þá gáfu þessir snillingar ekkert eftir þegar þær kepptu við okkur starfsfólkið í brennó og stóð þetta ansi tæpt á köflum. Þá röðuðu þær inn viðurkenningum og verðlaunum á lokastundinni sem var haldinn eftir hádegi.
Unglingadísirnar okkar í ár voru kraftmiklar og drífandi. Margar þekktum við vel og aðrar voru að koma í fyrsta skipti en hópurinn var orðinn eitt lið strax á öðrum degi. Þær sem þekktu staðinn og starfið voru duglegar að leiðbeina þeim nýju og pössuðu upp á að þær vissu alltaf hvað væri í gangi og hvert þær ættu að fara næst.
Það eru algjör forréttindi fyrir okkur starfsfólkið að hafa fengið að kynnast þessum stelpum og vera með þeim í heila viku. Takk fyrir að treysta okkur fyrir þeim og gefa okkur tækifæri á að eyða tíma með þeim – Þið getið öll verið virkilega stolt af þessum einstöku eintökum sem að þið eigið.
Við þökkum hópnum fyrir æðislega og eftirminnilega viku og vonum að þær hafi skemmt sér jafn vel og við.
Stelpur, aldrei gleyma því hvað þið eruð frábærar!
Ölverskveðja
Starfsfólk unglingaflokks 2022
Ath. Óskilamuni má nálgast á skrifstofunni okkar á Holtavegi 28.