Fyrsta nóttin gekk glimrandi og stelpurnar hvíldust vel.
Morgundagsskráin er ávallt sú sama og hefur reynst frábærlega til að hefja daginn. Foringi vakti stelpurnar klukkan 9 með ljúfri tónlist og þær komu sér á ról. Í morgumat fengu þær hafragraut, kornfleks, seríos og með því. Ein stúlknanna rak augun í kind með tvö lömb fyrir utan gluggann og þustu stelpurnar út í glugga að sjá þessa óvæntu gesti. Það þarf svo dásamlega lítið til að gleðja og tendra tilveruna! Eftir mat fóru þær út í fánahyllingu, þar sem sunginn er söngur og fáni dreginn að húni – nú í sól og blíðri golu.
Þá fengu stelpurnar tíma til þess að taka til í herbergjunum sínum, áður en við komum saman í samkomusalnum í morgunstund. Þar sungum við söngva og var tækifæri til að sitja saman í ró, færa þakkir og biðja fyrir deginum. Í miðri hugleiðingu frá forstöðukonu heyrðist rosalegt hróp að utan, rétt fyrir utan gluggann og hrukku stelpurnar við. Þær þustu út í glugga, bjuggust við að einn foringjanna væri með fíflagang en sáu þá hvar eitt lambið stóð fyrir utan og hafði orðið viðskila við móður sína. Við skellihlóum allar af þessum gesti og skellihlægilegu truflun sem þetta minnti okkur á hvernig við mennirnir, eins og saklaus og tær lömbin, getum stundum villst frá okkar hirði.
Næst á dagskrá var brennó, það var skipt í lið og keppt fyrstu formlegu leikina í keppninni. Stelpurnar voru fljótar á bragðið og fylltust ákvefð og fókus og brostu út að eyrum.
Í hádegismat var boðið upp á grænmetisbuff, kúskús og salat. Það brutust út fagnaðarlæti þegar tilkynnt var að næst færum við í gönguferð niður að læk. Við spígsporuðum niður að læk í brakandi blíðu og nutu stelpurnar náttúrunnar eftir sínu höfði – sumar dunduðu sér á lækjarbakkanum með bók, í spjalli eða týndu ber, aðrar busluðu í stígvélum eða á tásunum, á meðan fjölmargar skelltu sér hreinlega í smá sundsprett í grunnum og frískandi læknum. Það var stórkostlegt að sjá þær safna í sig kjarki, hvetja hvora aðra til dáða og láta svo vaða ef þær vilja. Við starfsfólkið horfum á þær styrkjast og eflast með hverri stundinni, og samt erum við bara á degi 2!
Þegar við komum aftur upp í Ölver var síðdegissnarl; bananar, Ölvers-bollur með osti og skinku og lúffeng norsk tekaka. Stelpurnar voru svo himinlifandi með veitingarnar að þær klöppuðu fyrir bakaranum okkar fyrir vel unnin störf. Þá var komið að því að tilkynna dagsskrá síðdegisins og voru fagnaðarlætin meiri og meiri eftir því sem leið á tilkynninguna. Næst var komið að hoppukastalanum! Heita pottinum! Oooooog….. Slip & Slide! Þakið ætlaði næstum að rifna af húsinu við móttökurnar – hahaha, þær eru svo stórkostlegar þessar stúlkur og við í starfshópnum finnum fyrir einstöku andrúmslofti jákvæðni og þáttöku hjá hópnum.
Á meðan foringjarnir undirbjuggu herlegheitin fengu stelpurnar frjálsan tíma og flestar nýta hverja lausa stund yfir daginn til að vera úti að leika sér. Þær höfðu í gærkvöldi sumar orð á því, steinhissa yfir eigin uppgötvun: „Það er svooo gaman að vera úti að leika!“
Góða veðrið hélt áfram að gæla við okkur og allir skemmtu sér drottningarlega í Slip & Slide hjá okkur, þar sem foringjarnir höfðu dúkalagt langa braut niður grashlíðina, sprautuðu á hana vatni og stelpurnar báru á sig sápu og renndu sér svo niður á ógnarhraða. Sumum nægði nokkrar ferðir, en aðrar fóru aftur og aftur og aftur og aftur og skemmtu öllum sem á horfðu með djörfung og lipurð. Svo hlýjuðu þær sér allar í heita pottinum og fóru í sturtu.
Tveimur herbergjum var úthlutað að bjóða upp á skemmtiatriði kvöldsins og tóku þær tíma til að æfa sig og stilla saman strengi með aðstoð foringja.
Í kvöldmat fengu þær hakk & spaghetti og salat. Þær hafa góða matarlyst og rennur allt ljúflega niður sem borið er á borð. Eftir frjálsan tíma var hringt inn á kvöldvöku þar sem við sungum, horfðum á frábær leikrit og tókum þátt í leikjum sem stelpurnar í Hlíðaveri og Hamraveri höfðu undirbúið. Skyndilega kom einn foringinn stormandi inn í salinn með munninn svo stútfullan af sykurpúðum að það skildist ekki orð af því sem hún reyndi að segja okkur en með aðstoð kvöldvökustýru komumst við að því að nú skildi halda út í kvöldsólina í brekkusöng, nasla ávexti og grilla sykurpúða. Veðrið skartaði sínu fegursta og undurfagur söngur stelpnanna barst um allt svæðið. Hvílík stemning og lokahnykkur á frábæran dag. Og það var meira að segja grillað í hjólbörum – hvílíkt sport!
Þegar ég rölti upp úr lautinni til þess að taka mynd af hópnum og sólarlaginu fór hugsun í gegnum hugann: „Vá, þetta er draumi líkast.“ Í sömu andrá sé ég glæsilega ulgu svífa fimlega hjá. Staðfest. Lífið er töfrandi draumur og við hér í Ölveri erum heldur betur að njóta hans!
Eftir það nutu stelpurnar sín í spjalli, rannsóknarleiðangri um skóginn, í rólunum eða í kósý uppí húsi. Svo fundum við okkur allar leið hratt og örugglega í hátt, piss & bursta til að eiga náðuga stund með bænakonunum í loks dags.
Viðburðarríkur dagur að kveldi kominn, allar komnar í ró og ótrúlegt að við séum bara að ljúka degi 2 (fyrsta heila deginum okkar) því við erum búnar að kynnast svo vel á svo stuttum tíma.
Kær kveðja Áróra