Hvað haldiði að hafi gerst í morgun!?! Við vöknuðum upp við heilagan jólaanda og vissum ekki hvað sneri upp né niður! Erum við að upplifa jól í júlí eða erum skyndilega staddar í Eyjaálfu í desember? Eftir góðan nætursvefn vakti jólasveinninn stelpurnar og jólalög ómuðu um gangana. Þegar þær komu inn í morgunmat gengum við allar saman, dvalarstúlkur, starfslið og jólasveinninn og jólaengillinn að sjálfsögðu með, í kringum einiberja-runn // langborðin 3, héldumst í hendur og þvoðum okkar þvott og gengum kirkjugólf – sungum hástöfum og lékum með. Morgunmaturinn rann rjúflega niður að vanda – grautur, morgunkorn og súrmjólk. Jólalömbin voru á sínum stað að bíta gras beint fyrir utan gluggann – á sama tíma og sama stað og í gær. Það eru fleiri en við mannfólkið sem hafa hefðir á morgnana hér í Ölveri!
Fáni var dreginn að húni við fagran söng – annar dagur í blíðskaparveðri. Þar á eftir fóru sópar og fægiskóflur á loft og stelpurnar tóku glimrandi vel til í herbergjunum sínum. Það er nefnilega svo skemmtilegt hvernig ýmsir hlutir geta verið aaaaalveg týndir og tröllum gefnir, en finnast svo bara áreynslulaust í tiltektinni. Á morgunstundinni sungum við saman falleg lög sem minna okkur á kærleikann, gleðina og fjölbreytileika lífsins og gáfum svo okkur sjálfum og hvorri annari næði til að sitja í ró, spenna greipar, þakka og biðja fyrir nýjum degi. Það er svo notalegt að geta setið margar saman í kærleiksríkri nærveru og leyft athyglinni að hvíla í okkar eigin hjarta, án þess að fikta í öðrum eða aðrir fikti í manni sjálfum. Stelpurnar heyra á hugleiðingar af áhuga og eru duglegar að spurja. Þær skokkuðu svo út í jóla-brennó þar sem tækifæri gafst að taka á sprett, hrópa hátt og fá útrás í leik og fjöri.
Í hádegismat var boðið upp á Möndlugraut og smurðar hátíðarsamlokur. Á eftir var frjáls tími og tilvalið að fara út að leika í góða veðrinu eða hvíla sig aðeins inná herbergi.
Næst var komið að jóladagskránni og var hópnum skipt í þrennt og fór hver hópur á þrjár stöðvar. Ein stöðin var bráðskemmtilegur ratleikur um svæðið – Leitin að Jesúbarninu – því það þarf að sjálfsögðu Jesúbarn til þess að halda almennileg jól. Herbergin voru saman í liði og hlupu saman um svæðið og á hverri stöð fengu þær vísbendingar sem leiddi þær áfram, og reyndist hjálpsemi og pepp þeim vel í leiðangrinum. Önnur stöð var Ölvers-jólaball, en sögur segja að jólaböllin í Ölveru séu þau allra skemmtilegustu. Það var heldur betur fjör hjá þeim að dansa og syngja í kringum jólatréið (sem var foringi í jólatrésbúning) og dönsuðu svo í roknastuði við öll mestu stuð jólalögin. Það er svo gaman að sjá hvað þær eru til í tuskið og njóta sín til fulls í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Þriðja stöðin var notaleg föndurstund í matsalnum þar sem þær byggðu sitt eigið pínu piparkökuhús og skreyttu það með glassúr og nammiskrauti – og hér fékk sköpunargáfan að njóta sín.
Í síðdegissnarlinu var boðið upp á bananabrauð og jógúrtköku – og að lokum litla piparkökuhúsið sitt ef þær vildu. Eftir það var komið að hæfileikasýningu og höfðu stelpurnar klukkutíma til að undirbúa sig. Uppskeran var vægast sagt stórkostleg og hafa bara ekki farið sögur af fjölbreyttari og lengri hæfileikasýningu því þær voru svo margar sem nutu þess að stíga á stokk og sýna listir sínar. Fagnaðarópin og hlátrasköllin hljómuðu alveg út á tún!
Stelpurnar í Lindaveri og Skógarveri létu ekki þar við sitja heldur fóru beint að undirbúa atriði fyrir kvöldið og svo var bjallað í kvöldmat. Dýrindis tómatsúpa með pastaskrúfum og tortillur með salsa og osti. Eins og ávallt var matarlysting góð. Eftir smá frjálsan tíma var hringt inn í kvöldvöku – sungið, horft á frábær atriði og farið í leiki í boði herbergjanna. Svo kom frááábær tilkynning….trommusláttur…. BÍÓKVÖLD! Stelpurnar náðu í dýnurnar í rúmin sín, sængur og kodda og út varð risaflatsæng og ofurkósý í salnum. Eftir banana-, peru- og tómatabita fengu þær popp í glösum til að toppa stemninguna. Það var svo notalegt eftir fjörugan dag að eiga rólega stund saman. Undirrituð nýtti tækifærið með allan hópinn saman og leiddi stutta slökun, til að styðja stelpurnar að halda ró inn í svefninn. Að sjálfsögðu lifnaði yfir sumum dömum um leið og þær voru komnar fram á gang og aðrar laumuðu sér beint í ró og hvíld. Við erum með svo mismunandi orkustig og sumar alveg í stuði þar til höfuðið snertir koddann – og voru þær fljótar að sofna í kvöld.
Hvílík gjöf og gersemi að fá að njóta þess að vera hér – með stúlkum og samstarfsfólki,
Áróra