Nýr dagur – ný ævintýri!
Eins og aðra daga – dýrindis morgunmatur og ljúfheit. Eftir mat fengu stelpurnar stórfréttir dagsins – að eftir hádegi værum við á leið í sund! Eftir fánahyllingu tóku þær til sunddótið sitt og gerðu herbergin sín snyrtileg og fín, og áttum við svo ljúfa morgunstund saman þar sem við lærðum allar að fletta upp í Nýja Testamentinu og lásum saman nokkur orð um kærleikann, sem fellur aldrei úr gildi. Þá var æsispennandi brennó og þar á eftir beint í hádegismat. Ráðskonan okkar bauð upp á litríkt og næringaríkt pastasalat með grænmeti, skinku og eggjum. Við söfnuðumst síðan allar saman fyrir utan hús í mildu veðri, léttskýjað og logn, og biðum eftir rútunum. Það var virkilega gaman á leiðinni því við sungum saman uppáhalds Ölvers-lögin og meira að segja voru ekki bara óskalög heldur líka óskabæn sem við fórum með saman. Stemningin er svo ljúf og góð í hópnum að rútubílstjórinn hafði orð á hvað það væri gaman að hafa fengið bíltúrinn með okkur í dag. Áfangastaðurinn var Hlaðir, þar sem litla sæta sveitalaugin tók á móti okkur. Við fengum útiklefann út af fyrir okkur, sem var nokkuð skrautlegt þar sem klefinn virðist vera vinsælt heimili fyrir köngulær. Sumar kipptu sér ekkert upp við það, en aðrar þurftu að telja í sig kjark, hughreista hvora aðra og fá aðstoð foringja og forstöðukonu við að fjarlægja köngulærnar varlega úr klefanum. Það þarf ekki mikið til að lífið verði ævintýri með ógnum og áskorunum sem finna þarf snjallar leiðir til að yfirstíga!
Það var svo mikið stuð í lauginni, búa til hringiðu, stórfiskaleikur, spjalla og kasta bolta. Gleði stelpnanna smitaði útfrá sér til annarra sundlaugagesta sem fengu sundferð í hressari kantinum þennan daginn. Þegar allar voru komnar upp úr var boðið upp á dýrindis síðdegissnarl – skinkuhorn og betri útgáfan af Subway smákökum. Þar til rúturnar komu að sækja okkur spilaði undirrituð englatóna með chimes og við lékum okkur með raddirnar okkar – að tóna sérhljóða eins lengi og við mögulega gætum. Heimferðin í rútunni gaf stelpunum tækifæri á að finna smá ró og hvíld, sem getur verið áskorun fyrir litla kroppa þegar það er svona margt í boði allan daginn eins og hér í Ölveri.
Næst á dagskrá voru Ölversleikarnir niðri á fótboltavelli, þar sem keppt er í furðulegum leikjum þar sem allir geta tekið þátt og látið ljós sitt skína. Sólin fór að skína með okkur þ.a. þegar Fuglaver og Fjallaver fóru að undirbúa atriðin sín fyrir kvöldvöku dreifðust hinar stelpurnar um landið í leiki í lautu eða leiktækjum.
Í kvöldmat var burrito þar sem stelpurnar fylltu tortilla kökurnar sínar sjálfar með salsa, grænmeti og hakki. Þær eru svo þakklátar og ánægðar með allt sem er boðið upp á og konurnar í eldhúsinu njóta þess í botn að elda fyrir svona frábæran hóp. Þá fengu stelpurnar frjálsan tíma og þegar við hringdum inn í kvöldvöku fór undirrituð í leiðangur um landið og útisvæðið að ná í fjörugar stelpur sem voru alveg í sínum heimi að njóta og leika saman og heyrðu ekkert í bjöllunni. Enn er blíðan hjá okkur hérna í Ölveri og féllum við í stafi síðar í kvöld við rauðgullið sólsetrið.
Kvöldvakan var skemmtileg að vanda með söng og dansi, frábærum atriðum og leikjum frá stelpunum og svo fallegri hugleiðingu frá foringja sem tendraði innblástur og kjark. Svo var það bara beinustu leið í kvöld-ávexti, náttföt og bursta tennur, en þegar allar stelpurnar voru komnar inn á herbergi byrjuðu rosa læti á göngunum – foringjarnir voru búnir að mála sig í framan og gengu um trommandi um með sleifar, potta og pönnur. Nú var komið að náttfatapartýi! Allar stelpurnar hlupu upp á sal í náttfötunum og það var þvílíkt dansstuð. Foringjarnir voru í roknastuði, leiddu dans og söng, ásadans og fleiri dansleiki, þar til foringjar komu inn með leikrit sem endaði á því fagnaðarefni að allar stelpurnar fengju nú frostpinna og að horfa á bráðfyndið leikrit í boði foringja.
Þá er langur dagur að kveldi kominn og stúlkurnar fljótar að sofna eftir fjörugan dag.
Hlýjar kveðjur,
Áróra