Heimfaradagur runninn upp og alveg ótrúlegt hvað þessir dagar hafa verið fljótir að líða á sama tíma og það sé eins og við höfum alltaf þekkst og verið saman í 100 ár! Það var smá dekur í morgun þegar stelpurnar voru vaktar hálftíma seinna en síðustu daga – því það er svo gott að koma heim eins vel hvíldar og kostur er. Heimfaradagur byrjar á nokkuð hefðbundinn hátt þó að það sé að sjálfsögðu meiri erill í loftinu en aðra daga. Hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk, og svo extra ávaxtahlaðborð, í morgunmat. Eftir það var fáninn dreginn að húni og þetta var fyrsti dagurinn þar sem skýin voru í dekkri kantinum en þó alveg þurrt. Eftir fánahyllingu var kominn tími til að pakka niður og ganga frá, með dyggri aðstoð foringjanna til að passa að allt færi ofan í tösku. (Ég minni á að ef eitthvað hefur ekki skilað sér þá fara óskilamunir á Holtaveg)
Morgunstundin var ljúf og notaleg þar sem við báðum bænir og sungum lög, sem stelpurnar kunna vel eftir síðustu daga og taka undir af lífi og sál. Við báðum svo saman með því að láta englastyttu ganga um salinn, og hver og ein valdi hvort hún þakkaði og bað í hjarta sínu eða leyfði okkur hinum að heyra þakkir sínar og bænir með orðum. Það snart undirritaða svo að hlýða á en einlægnin og orkan í rýminu var svo áþreifanleg að augun urðu barmafull af tárum og hjartað stækkaði um nokkur númer! Það er svo ómetanlegt að muna að hjartað getur alltaf alltaf elskað meira, og síðustu daga hafa stelpurnar og starfshópurinn svo sannaralega hjálpað mér að finna það ❤️
Þá var komið að æsispennandi stund; Foringja-Brennó. Þá mæta foringjarnir til leiks í íþróttahúsið í merktum búningum með keppnis-málningu í andlitinu, og hlaupa inn á völlinn við peppað undirspil og hita upp eins og atvinnumenn. Þá er sigurlið brennókeppninnar tilkynnt og keppir það við foringjana við dyggan stuðning hinna liðanna. Stelpurnar byrjuðu leikinn með trompi og náðu strax yfirhöndinni. Foringjarnir voru skotnir út einn af öðrum, náðu nú aðeins að halda í við stelpurnar og það var enn von. Leikurinn varð æsispennandi sem á leið en svo fór sem fór – stelpurnar stóðu sig stórkostlega, heldur betur samstilltar og í góðri þjálfun eftir vikuna og sigruðu leikinn! Að sjálfsögðu fögnuðu áhorfendur hástert og fögnuðu foringjarnir að lokum með stelpunum líka. Næsti leikur var foringjar á móti öllum stelpunum í flokknum. Leikurinn var bráðskemmtilegur og sýndu bæði foringjar og stelpurnar flotta takta, en nú voru foringjarnir orðnir heitir og höfðu sigur. Við fögnuðum allar saman í lokin og hlupum svo út í pulsur úti á stétt, í hlýju og mildu veðri. Það var mikil stemning í hópnum, góð tónlist undir og við allar syngjandi og dillandi. Stelpurnar nutu síðustu frjálsu stundanna úti í rólu, að ganga á stultum eða búa til vinabönd uppi í sal.
Síðast á dagskrá var kveðjustund á sal, þar sem við sungum lög og foringjar gáfu viðurkenningar og tóku myndir af stelpunum. Svo sungu foringjarnir Ölvers-lag 2022 og útdeildu bænabæklingum þar sem bænakona hvers herbergis hafði ritað litla kveðju til stelpnanna og þar var einnig að finna textann af laginu, þ.a. við tókum allar undir og dönsuðum saman. Hvert herbergi fór svo með sinni bænakonu inn á herbergi í stutta kveðjustund áður en við fórum út í rútu eða hittum foreldrana úti á stétt.
Í þessum rituðu orðum sitjum við í rútunni við Esjurætur og stelpurnar syngja hástöfum „Ölver í faðmi fjalla“. Það snertir enn á ný hjartastrenginn minn sem framleiðir smá tár. Mikið er gott að vera til.
Kæru foreldrar og forráðamenn, við þökkum fyrir frábæra samveru með stúlkunum ykkar – þær eru frábærar og hver ein og einasta setti sitt einstaka mark á upplifunina. Við sendum hlýjar óskir til ykkar og fjölskyldunnar og megi Ölvers-andinn lifa með stelpunum og vonandi næra ykkur líka 🙂
Með þökkum og gleði í hjarta,
Áróra