30 kátar stelpur dvelja nú í Leikjaflokki Ölvers nr.2 þetta sumarið. Rósa heiti ég og er forstöðukona flokksins. Ég mun jafnframt skrifa pistla daglega eða fram á fimmtudag þegar flokknum lýkur.
Í flokknum eru ljúfar og skemmtilegar stelpur sem við starfsfólkið höfum verið að kynnast í dag í gegnum alls kyns dagskrá og leiki. Ég ætla aðeins að lýsa þeirri dagskrá sem við fylgdum í dag:
Eftir að komið var upp í Ölver var stelpunum boðið inn í matsalinn og þar kynntum við fyrir þeim nokkrar húsreglur og töluðum um að Ölver væri núna heimili þeirra næstu 4 daga. Við röðuðum þeim niður í herbergi og urðu herbergin, Hlíða-, Hamra-, Linda-, og Skógaver fyrir valinu. Þegar allir voru komnir með herbergi, þá hjálpuðu foringjarnir stelpunum inn með töskurnar og þær komu sér fyrir og völdu sér kojur. Eftir það var komið að hádegismat og fengu þær ljúffengt skyr og pizzabrauð í matinn, mjög vinsælt og allir borðuðu vel. Eftir það fórum við út í göngutúr um svæðið, í nafnaleik og inn í íþróttasal, þar sem brennóleikurinn var kynntur fyrir þeim. Skipt var í lið, herbergi á móti herbergi.
Komið var síðan að kaffinu eða drekkutímanum, og þá fengu allir djús eða vatn ásamt dýrindis nýbökuðu bakkelsi, jógúrtköku með súkkulaðibitum og volgt bananabrauð með smjöri og osti. Allir fengu vænar sneiðar af þessu góðgæti. Eftir það var brugðið á leik, ég bauð þeim upp í kvöldvökusalinn og kenndi þeim nokkra handa-leikfimis-söngva. Í miðjum klíðum var bankað á dyrnar hjá okkur og tveir aðstoðarforingjar sögðu mér að það væri búið að stela cornflexinu sem ætti að bjóða uppá í morgunmat í fyrramálið. Ég ásamt stelpunum öllum hlupum út og sáum að cornflexi hafði verið dreift, og við fetuðum cornflexslóð mikla þar til við fundum foringjana, eða sökudólgana að þessu uppátæki, því þarna voru foringjarnir að hrekkja okkur dálítið. Í framhaldi þá fengu stelpurnar að vita hverjar af foringjunum væru þeirra bænarkonur. En bænakonur eru foringjarnir nefndir þegar þeir fara inn á herbergin á hverju kvöldi til að lesa sögur, tala við stelpurnar og fara með kvöldbæn fyrir svefninn. Bænakonuleitin, er afar vinsælt uppátæki hér í Ölveri og oft reynt að gera leitina mismunandi hverju sinni. Eftir leitina var farið í nokkra skipulagða útileiki og einnig leikið frjálst. Í kvöldmat var boðið upp á dýrindis fisk steiktum í ofni, með bökuðum kartöflum ásamt tómötum og gúrkum. Kvöldvakan var á sínum stað þar sem sungnir voru margir skemmtilegir söngvar, tvö herbergi sýndu leikrit og sáu um tvo leiki einnig þar sem sjálfboðaliðum bauðst að taka þátt í skemmtilegum leikjum. Í lokin sagði ég stelpunum sögu, beðin var kvöldbæn og sunginn kvöldsöngur Ölvers. Nú er komin ró inni á herbergjunum og vonum við að allir sofi rótt. Margar af stelpunum eru að koma í fyrsta sinn til að gista í sumarbúðum, algjörar hetjur.
Bestu kveðjur
Rósa Jóhannesdóttir