Allar stelpurnar sváfu vel í nótt og þær mættu hressar í morgunmat kl. 9.00. Þar lærðu þær nýjan morgunsöng sem við ætlum að syngja hvern morgun í flokknum okkar.
Eftir morgunmat var komið að fánahyllingu og þær þustu út á plan og sungu þar fánasöng Ölvers. Því næst var haldið inn og nú áttu stelpunar að fara inn á herbergin sín til að ljúka við að gera hreint og fallegt inni hjá sér. Margar voru strax búnar að átta sig á að það væri hegðunar-og tiltektarverðlaun fyrir þær flinkustu/virkustu, svo allar lögðu sitt af mörkum til að herbergið þeirra liti sem best út. Eftir það var svo komið að biblíulestrarstund í minni umsjón. Á meðan á henni stóð, gengu foringjarnir um og skoðuðu flottu herbergin stelpnanna og afrakstur tiltekta 🙂

Á biblíulestrarstundinni skoðuðum við Nýja-Testamentið, sumar höfðu komið með bækur heimafrá sér og skoðuðum við þetta saman. Ég sagði þeim þegar ég var sjálf 10 ára að þá komu menn í heimsókn í skólann minn, með stórar töskur og afhentu hverju 10 ára barni Nýja-Testamentið í skólanum. Við lærðum síðan að fletta upp og leita að versum í Nýja-Testamentinu, en það er alveg heilmikið að læra það, fyrst að finna um hvaða bók sé að ræða, síðan stóra tölu fyrir kaflanúmerið og svo litla tölu fyrir númerið á hverju versi. Bara heilmikið kennsla og upplifun í lestri í leiðinni 🙂 Ölver á nóg af eintökum til afnota fyrir allar stelpurnar svo allar lærðu þær að fletta upp. Við lærðum að leita uppi 23 Davíðssálm og eftir það sungum við lagið, Drottinn er minn hirðir.
Ég bað síðan alla árganga að koma upp eina í einu og kynna sig. En flokkurinn okkar núna samanstendur af stúlkum fæddum 2012, 2013, 2014 og 2015. Ég fékk þar heilmikið verkefni í leiðinni, að reyna að læra öll nöfnin á stelpunum 🙂
Eftir stundina var haldið út í brennó, en brennóleikirnir falla vel í kramið hjá þessum duglegu stelpum í leikjaflokki Ölvers. Og allar taka þær þátt af áhuga. Þetta er þroskandi að læra að spila leik og einnig að læra að horfa á aðra spila.
Eftir brennóleikina var komið að hádegisverði og í boði var afar vinsæll matur hjá stúlkugormunum, hakk og spaghetti ásamt niðursneiddum gúrkum og gulrótum.
Eftir kaffi var svo komið að Ölversleikunum. Þar keppa herbergin sem ein liðsheild í hinum ýmsu þrautum eins og : stígvélakasti, störukeppni, sippkeppni, rúsínuspýtingu, flottasta uppstillingin o.fl. Mjög gaman.
Núna er ég skrifa þessi orð þá sitja þær við matarborðið, í boði er súkkulaðibitakaka ásamt pizzasnúðum, nammi namm.
Eftir kaffi er áætlað að hafa hæfileikakeppni/sýningu. Þar geta stelpurnar skráð sig að vild, eða bara notið skemmtiatriðanna sem eru í boði. Eftir það fara stelpurnar í heita pottinn. Kvöldverður verður á sínum stað kl. 19.00

Kvöldvaka eftir það, þar sem við fáum að sjá hin tvö herbergin leika leikrit eða kenna okkur leik sem stelpurnar fá að taka þátt í. Eftir það er á planinu að hafa “surprice- náttfatapartý”, en þær vita ekkert af þeim plönum enn 🙂

Hér er linkur að myndasíðu flokksins, en við höfum verið iðnar að taka fullt af myndum af þessum skemmtilegu stelpum í 8.flokki 🙂

Bestu kveðjur í bili,
Rósa forstöðukona.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/52242789439/in/album-72177720300825152/