Hæ hæ.
Dagurinn í gær var mesti rigningadagur í manna minnum. Hann hófst á hefðbundnum upplifunum í sumarbúðunum okkar í Ölveri: morgunmat, fánahyllingu, morgunstund og brennó.
Í hádegismat fengu stelpurnar dýrindis grjónagraut ásamt brauði með ýmiskonar áleggi. Eftir matinn fórum við út í rigninguna, vel dúðaðar í pollagöllunum okkar og stígvélunum. Við fórum í göngutúr, sungum og hoppuðum í pollunum, sáum nokkrar kindur á leiðinni en síðan fóru þær fljótlega inn því regnið dundi endalaust á okkur. Því var kærkomið að kom inn eftir rigninguna og allar stelpurnar dunduðu sér vel í herbergjunum sínum, sumar teiknuðu, aðrar perluðu eða bjuggu til vinabönd. Þessi innvera vera var þeim kærkomin eftir blauta regnið, og stelpurnar extra rólegar 🙂
Við vorum með afmælisbarn í hópnum og í kaffinu fengu allir sérlega góða súkkulaðiköku með bleiku kremi og sungum við fyrir fínu afmælisstelpuna okkar sem varð 7 ára þennan dag. Einnig fengu stelpurnar brauðbollur Ölvers, sérlega vinsælar og góðar bollur. Já og stelpurnar fengu heitt kakó að drekka með, sem var nú vinsælt í þessu rigningarveðri.
Eftir kaffið fórum við strax að skipuleggja pottafjör og fóru allir í pottinn, eða sturtu og herbergin saman í einu. Hún Sigríður Sól foringi, bauð síðan upp á hárgreiðslustund og fléttaði nánast allar stelpurnar af miklum myndarskap, við dúndrandi discotónlist í matsalnum.
Síðan fóru allar í sparifötin sín og kl. 19.00 hófst veislukvöldið okkar. Boðið var upp á pizzur í fagurlega skreyttum matsalnum. Á meðan við starfsfólkið borðuðum og skipulögðum leikrit kvöldsins sem var í umsjón foringjanna og aðstoðarforingjanna að þessu sinni, var boðið upp á frjálsan tíma, hægt var að horfa á mynd í kvöldvökusalnum, eða stutta þætti, en margar völdu einnig að leika inni á herbergjunum sínum á meðan.
Síðan hófst hátíðarkvöldvakan. Við fengum góða gesti sem stjórnuðu söngnum, alls konar hreyfisöngvar og einnig rólegir söngvar voru sungnir og inn á milli héldu foringjarnir uppi stuðinu með sérlega skemmtilegum leikritum. Mikið hlegið og mikið fjör.
Í kvöldkaffi var boðið upp á ricecrispieskökur.
Sáttar og glaðar stelpur fóru síðan í háttinn.
Nú þegar ég skrifa þessa lokafærslu þá eru allir að pakka ofan í töskur.
Nýr dagur rann upp í morgun, hófst á morgunmat, stelpurnar fengu að sofa hálftíma lengur. Eftir að allir hafa pakkað ofan í töskur þá er á dagskrá samverustund í minni umsjón. Eftir það foringjabrennó, þar sem stelpurnar spila við foringjana.
Kl. 13 ca er hádegismatur, boðið verður upp á pylsur í pylsubrauði.
Kl. 14.00 hefst lokasamveran og þá syngjum við lokasönginn okkar sem er með Ölverstexta við lag Reykjavíkurdætra, Tökum af stað 🙂 einnig fara þá fram verðlaunaafhendingar og knús og bless.
Kl. 15 fer síðan rútan af stað héðan úr Ölveri. Áætlum að vera komin í bæinn kl. 16.00
Ég minni á myndasíðuna okkar, en best að kópera þennan link, þá komist þið beint á síðuna. Við eigum eftir að setja inn fleiri myndir seinna í dag alveg fram til kl. 15.00 :
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/52242789439/in/album-72177720300825152/

Sérlega ánægjulegum dögum okkar hér í Ölveri fer senn að ljúka. Við þökkum traustið sem þið sýnduð okkur við gæslu yndislegra dætra ykkar. Megi sumarið verða ykkur áfram gleðilegt of farsælt.
Kær kveðja
Rósa Jóhannesdóttir forstöðukona
Nanna ráðskona, eldaði allan matinn
Kristrún bakari, bakaði dýrindis kökur og brauð
Foringjarnir:
Andrea Rut
Gertruda
Salóme
Sigríður Sól
Ásdís
Aðstoðarforingjarnir:
Bríet og Rylie
Söngstjórar á hátíðarkvöldvökunni:
Iðunn Helga og Gréta Petrína