Heil og sæl.

Hér í Ölveri eru 46 hressar og skemmtilegar stelpur. Við vorum komnar hingað upp í Ölver upp úr hádegi. Að vanda byrjuðum við inni í matsal til að fara yfir þessar helstu reglur sem gilda til að sambúðin gangi sem best næstu 6 dagana. Þeim var svo raðað niður í herbergi. Þær sem voru með óskaherbergi fengu óskirnar uppfylltar. Þær fengu svo skyr og pizzabrauð í hádegismatinn.

Eftir hádegismat var farið í gönguferð um svæðið. Þær eru örlítið fleiri sem eru að koma í fyrsta sinn og en margar eru vanar og hafa komið áður, jafnvel nokkrum sinnum. Þær fóru líka í nafnaleik inni í íþróttahúsi og fengu kennslu/upprifjun í brennó. Í kaffitímanum var nýbakað bananabrauð og risa subwaykaka. Eftir kaffitímann var Ölver’s Top Model. Þær fengu nokkra hluti í hendurnar sem módelið þeirra varð að nota. Þessir hlutir voru meðal annars muffinsform, kaffipoki, band og svartur ruslapoki. Þær áttu svo að græja tískufatnað úr þessu og máttu bæta við ef þeim sýndist svo. Þær héldu svo tískusýningu fyrir hinar stelpurnar og foringjana.

Í kvöldmatinn var steiktur fiskur og bátakartöflur, ásamt grænmeti. Stelpurnar borðuðu mjög vel. Þá var komið að kvöldvöku og foringjarnir sýndu tvö atriði. Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi og svo fóru stelpurnar út að leita að bænakonunum sínum sem voru týndar. Það fannst engin bænakona svo stelpurnar voru kallaðar inn og þá voru bænakonurnar, í grímubúningum, mættar á herbergin sín. Stelpurnar fóru svo að hátta, pissa og tannbursta. Bænakonurnar eru inni á herbergjunum að lesa núna. Hingað til hefur dagurinn gengið mjög vel og það verður vonandi þannig áfram.

Bestu kveðjur úr Ölveri,
Þóra forstöðukona.