Heil og sæl.

Flestar stúlkurnar voru vaknaðar um og upp úr klukkan 8 í morgun en vakning var ekki fyrr en klukkan 9. Morgunmatur var á sínum stað og að venju var hafragrautur, súrmjólk og morgunkorn í boði. Eftir morgunmatinn er alltaf fánahylling og svo tiltekt á herbergjum.

Á biblíulestri morgunsins fengu stelpurnar góða fræðslu um Kristrúnu Ólafsdóttur, stofnanda Ölvers, söguna á bak við sumarbúðirnar okkar og Sveinbjörgu Arnmundsdóttur sem vann við hlið Kristrúnar alla tíð í Ölveri. Þær hlustuðu mjög vel enda saga staðarins mjög merkileg. Eftir biblíulestur hófst brennókeppnin formlega. Liðin heita Mars, Twix, Bounty, Snickers, Milky Way og Prins Polo. Öll liðin leika 1-2 leiki á dag og er fjóra morgna. Fimmta og síðasta morguninn spilar svo vinningsliðið við foringjana.

Í hádegismat fengu stelpurnar hakk og spaghetti. Eftir matinn voru Ölversleikar en þar var keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum eins og stærsta brosið, stígvélaspark, rúsínuspýtingar, orðarugl, giska á fjölda cheeriosa í glasi, sipp og hlaup. Í kaffinu voru pizzasnúðar og jógúrtkaka, bakað hérna í morgun. Eftir kaffi var pottur, perlur, vinabönd og frjáls leikur í boði. Flestar stelpurnar fóru í pottinn en einhverjar vildu bara fara í sturtu. Hamraver og Lindarver undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna og bæði herbergin völdu að vera með eitt leikrit og einn leik.

Í kvöldmatinn fengu þær grænmetisbuff og kúskús. Eftir kvöldmat var kvöldvakan þar sem Hamraver og Lindarver skemmtu hinum. Þær sungu líka nokkur lög eins og við gerum alltaf á öllum samverustundum í salnum uppi. Þegar kvöldvakan var alveg að klárast komu nokkrir foringjar inn með tónlistina í botni og sendu alla niður í náttföt – það var NÁTTFATAPARTÝ! Náttfatapartýin í Ölveri eru alltaf svo ótrúlega skemmtileg, þær dansa mikið og svo er eitt leikrit í lokin sem er yfirleitt mjög ólétt kona sem endar á að „fæða“ 50 íspinna 🙂 Á meðan þær borðuðu ísinn hlustuðu þær á hugleiðingu kvöldsins. Þær sungu svo kvöldsönginn okkar og foringjarnir sungu þær svo niður en það er hefð að gera það eftir náttfatapartý. Þær fóru svo niður til að taka sig til fyrir svefninn og núna (um 23:15) er að færast ró yfir húsið.

Viðburðarríkur og skemmtilegur dagur að baki. Veðrið var ótrúlega gott í dag og núna er hér um bil blankalogn sem er ekkert voða algengt hér.

Við kveðjum í bili og hlökkum til morgundagsins.
Kveðja,
Þóra.