Heil og sæl.

Nú er langur og góður dagur að kvöldi kominn.

Það voru einhverjar stelpur vaknaðar fyrir klukkan 9 í morgun en nokkrar voru enn sofandi þegar foringjarnir fóru og vöktu þær. Morgunmaturinn var hálftíma síðar og strax eftir hann var fánahyllingin. Þær tóku aðeins til í herbergjunum sínum og fóru á biblíulestur. Þar heyrðu þær sögu um kraftaverk Jesú og sporin í sandinum, ásamt því að þær æfðu sig í að fletta upp í nýja testamentinu.

Brennókeppnin var á sínum stað með 4-5 leikjum. Eftir brennó var komið að hádegismatnum en að þessu sinni voru fiskibollur, hrísgrón og karrýsósa, ásamt gúrkum og papriku á boðstólnum. Eftir mat var ákveðið að nota veðrið, eins og sannir Íslendingar, og fara í gönguferð niður að á. Þar mega stelpurnar vaða eins og þær langar og taka með sér handklæði, sumar vilja vera í sundfötunum sínum en öðrum dugar að rétt dýfa tánum ofan í.

Þær komu beint í kaffitímann þar sem boðið var upp á Ölversbollur með smjöri og osti og skúffuköku. Eftir kaffi var boðið upp á að fara í pottinn, brjóstsykursgerð og svo voru tvö herbergi að undirbúa skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna. Eitt herbergi í einu fær að gera tvær uppskriftir af brjóstsykri og velja tvær bragðtegundir og liti á þá. Þetta fannst þeim ótrúlega skemmtilegt. Foringjarnir sjá um alla hættulegu vinnuna en þær fá svo stóra klessu sem þær þurfa að klippa niður í brjóstsykur. Það voru ekkert rosalega margar sem vildu fara í pottinn en það eru alltaf nokkrar sem finnst það alveg ómissandi. Margar vilja bara fara í sturtu, sem er hið besta mál.

Í kvöldmatinn var grjónagrautur með kanilsykri og rúsínum, brauð og appelsínur og þær borðuðu ekkert smá vel! Það var nánast ekkert eftir af grautnum fyrir starfsfólkið! 🙂 Það gleður okkur að þær séu svona duglegar að borða, því ef maður er saddur þá líður manni vel. Eftir kvöldmat hvöttum við þær til að vera úti enda geggjað veður. Um 20:30 var kvöldvakan. Þar er alltaf mikið sungið og mikið gaman. Stelpurnar í Hliðarveri og Skógarveri voru með tvö atriði hvort herbergi. Atriðin heppnuðust vel hjá þeim.

Rétt þegar kvöldvakan var að klárast réðust inn á hana nokkrir foringjar sem sendu stelpurnar út í Tuskuleikinn. Hann er þannig að stelpurnar þurfa að leysa 6 þrautir og fá eitt strik á handlegginn fyrir hverja þraut sem þær leysa. Svo eru foringjar á hlaupum með blauta tusku og ef þeir ná stelpunum mega þeir þurrka eitt strik af handleggnum. Stelpurnar þurftu þá að reyna að vinna þrautina aftur til að fá nýtt strik. Þær voru úti í um 45 mínútur og skemmtu sér allar mjög vel. Þegar inn var komið var búið að gera matsalinn kósý með kertum og rólegri tónlist. Ráðskonan okkar og bakarinn voru búnar að steikja vöfflur og þeyta rjóma fyrir alla. Þær tóku vel til matar síns og svo fengu þær að heyra hugleiðinguna sem átti að vera á kvöldvökunni. Kvöldið endaði svo með bæn og foringjarnir sungu þær inn í herbergin.

Nú er klukkan rétt að verða miðnætti og bænakonurnar eru inni á herbergjum að lesa fyrir þær fyrir nóttina og ná þeim í ró.

Við sendum bestu kveðjur heim úr Ölveri 🙂
Þóra forstöðukona.