Heil og sæl.

Dagurinn byrjaði klukkan 9 að vanda. Þær voru langflestar sofandi enda fóru þær mjög seint að sofa í gærkvöldi. Þær voru mjög þreyttar í morgunmatnum en tóku samt vel til matar síns. Eftir morgunmatinn var fánahylling. Þær fóru svo að ganga frá í herbergjunum sínum og á biblíulestur. Eftir biblíulestur var brennókeppnin, sem er alltaf spennandi og skemmtileg. Í hádegismat var tómatsúpa og stelpurnar borðuðu mjög vel.

Eftir hádegismatinn var ævintýraleikur. Stelpurnar þurftu að útbúa vegabréf og komast fram hjá tollverðinum með fullkomið vegabréf. Þær fóru svo 8 saman, með bundið fyrir augun, og fóru á fjórar mismunandi stöðvar. Þær hittu meðal annars norn með töfraseyði, trúð með dansstöð og sjóræningja með krók fyrir hönd. Um leið og leiknum lauk var komið að kaffitíma. Þær fengu kryddbrauð og möffins. Eftir kaffi var hæfileikasýning þar sem við fengum að sjá 7-8 frábær atriði. Svo var boðið upp á að fara í pottinn en það voru bara 4 sem vildu það. Nokkrar fóru í sturtu og síðustu tvö herbergin, Fjallaver og Fuglaver, undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldið.

Í kvöldmatinn var kornflexkjúklingur og franskar og þær borðuðu enn og aftur mjög vel. Kvöldvakan var skemmtileg, mikið sungið og leikritin og leikirnir sem stelpurnar voru með voru skemmtileg. Nú eru stelpurnar uppi í sal að horfa á Algör Sveppi og dularfulla hótelherbergið. Þær fengu brjóstsykurinn sem þær bjuggu til í gær og popp. Myndin klárast fljótlega og þá fara þær niður, græja sig í háttinn og bænakonurnar fara inn á herbergin.

Á morgun er veisludagur, síðasti heili dagurinn okkar og við hlökkum mikið til ævintýra morgundagsins.

Bestu kveðjur heim 🙂
Þóra forstöðukona.