Fyrsta helgarpartýið okkar í Ölveri formlega farið af stað!

Það voru 22 ölvers-unglingar sem mættu á Holtaveginn í dag, allir tilbúnir að taka þátt í að móta fyrsta helgarflokkinn okkar. Stórhluti af hópnum þekkir staðinn afar vel og var fljótur að grípa þau sem ný eru og segja frá starfinu og staðnum.

Við byrjuðum á að koma dótinu okkar fyrir og búa um okkur í herbergjunum en eftir það tókum við smá stund í að kynnast aðeins, rifja upp nöfn og fara yfir hvað hefur gerst síðan síðast.

Eftir kvöldmatinn var að sjálfsögðu haldin kvöldvaka og fengu allir sem vildu að vera með atriði og urðu þau nokkur talsins. Eitt herbergi var með smá starfsmanna-skop og erum við starfsmennirnir sammála um að það hitti gjörsamlega í mark og er eitt það besta og fyndnasta sem við höfum séð! Algjörir snillingar!

Eftir kvöldvöku var hópnum svo boðið út í kvöldsólina að gera Tie-die-ölversbol sem sló heldur betur í gegn… Þegar inn var komið var svo boðið uppá kvöldkaffi.

Þegar hópurinn var farin að huga að því að græja sig í háttinn tók hann eftir því að starfsfólkið var hvergi sjáanlegt … er það ekki örlítið óeðlilegt … það hlaut eitthvað að vera um að vera … var dagskráin kannski ekki alveg búin …

Auðvitað ekki … það var komið að náttfatapartý! Stemningin var gríðarleg og eftir að hafa dansað nánast allt loft úr kvöldvökusalnum fengum við okkur frostpinna saman og hlustuðum á sögu fyrir svefninn.

Það komst fljótt ró í húsið eftir langan og viðburðarríkan dag.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

 

Kvöldmatur: Tortilla hlaðborð með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Matarkex, epli og frostpinni