Hér voru allir komnir á fætur kl. 09:30, ferskir og klárir í daginn.

Við byrjuðum daginn á að fá okkur smá næringu, fánahyllingu og tókum svo í framhaldinu til í herbergjunum okkar. Þegar öll herbergi voru orðin hrein og fín áttum við smá morgunstund saman uppi í kvöldvökusal.

Eftir morgunstund var komið að brennómóti. Hópnum hafði verið skipt upp í fjögur lið og þar sem við höfum takmarkaðan tíma saman var ákveðið að mótið skyldi tekið í einni samfellu og gekk það vonum framar. Keppnin var hörð en að lokum var það eitt lið sem sigraði.

Eftir hádegismat var komið að Ölver‘s Top Model. Leik/keppni sem snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu, hverjum hópi er úthlutað ýmislegt til að vinna með, t.d. fengu hóparnir í dag sólgleraugu, keppnisvesti, plastpoka, herðatré, skrautsteina, límmiða og glimmer. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr því sem þau fengu en þau mega aðeins nota það sem þau fengu afhent. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar búið var að mynda alla hópa og taka hönnunina út af dómurum fengu stelpurnar smá frjálsan tíma.

Næst á dagskrá var svo pottur/sturta og að gera sig til fyrir veislukvöld. Hópurinn fékk smá verkefni í sturtunni en þau þurftu að „þvo“ og vinda Tie-die bolina sem þau lituðu í gærkvöldi.

Þegar hópurinn fór svo að týnast upp úr pottinum og allir voru að verða tilbúnir fyrir kvöldið bauð ráðskonan hópnum að koma og setja á sínar eigin Pizzur, það sló aldeilis í gegn.

Eftir kvöldmat var komið að veilsukvöldvöku þar sem starfsfólkið sá um að sýna leikrit og skemmta hópnum. Það var mikið sungið, mikið hlegið og flott stemning í salnum. Þegar við vorum búin að hlusta á mjög áhugaverða frásögn frá einum starfsmanni um markmiðasetningu var hópnum boðið niður í matsal í kósýkvöld. Hópurinn spjallaði og borðaði saman „eðlu“, setti svo á sig maska og agúrkur á meðan starfsfólkið spilaði og söng róleg lög.

Við sjáum ekki betur en að hér hafi allir farið þreyttir og sælir á koddann sinn í kvöld en það komst fljótt ró í húsið þegar allir voru búnir að hátta sig.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Morgunverðar hlaðborð
Hádegismatur: Steiktur fiskur, salat og kartöflubátar
Kaffi: Skinkuhorn, súkkulaðikaka með smjörkremi og súkkulaðibitakökur
Kvöldmatur: Pizza
Kvöldkaffi: Ávextir, snakk og eðla