Stelpurnar voru vaktar kl. 8:30 og gerðu sig tilbúnar fyrir morgunmat. Eftir matinn fóru þær á morgunstund þar sem sungnir voru margir hreyfisöngvar og sögð saga. Boðið var upp á hoppukastala úti og lyklakippugerð og fannst stelpunum það mjög skemmtilegt. Í hádegismat var svo dýrindis grjónagrautur og var svo lagt af stað í göngu að læknum þar sem stelpurnar gátu buslað og vaðað. Eftir kaffitímann var boðið upp á heita pottinn og að klára tie dye handklæðin ásamt því að gera sig til fyrir veislukvöldið. Veislukvöldmaturinn var ekki af verri endanum en það voru pizzur og rice crispies kökur í eftirrétt. Á veislukvöldvökunni léku foringjar og nokkrar stelpur leikrit. Stelpurnar fengu svo að horfa smá á mynd og borða frostpinna og ávexti. Allar sofnuðu vært eftir góðan, sólríkan og viðburðaríkan dag.

Á morgun, sunnudag, er áætluð heimkoma kl. 14 á Holtaveg 28. Við þökkum fyrir góðan flokk með frábærum stelpum! Fyrir hönd starfsfólksins, Guðlaug og Ólöf, forstöðukonur