Í dag hófst fyrsti ævintýraflokkur, þvílík veisla. Stelpurnar mættu hressar uppí Ölver um hádegi og þar var byrjað á því að koma sér fyrir og skipt niður í herbergi. Allar stelpurnar fengu að vera með vinkonum sínum og í óska herbergjum. Eftir það var skyr og pítsabrauð í hádegismat. Beint eftir hádegismatinn drifu stelpurnar sig út í ratleik þar sem leyst var úr þrautum og þær fengu að kynnast svæðinu á sama tíma. Þegar ratleiknum var lokið fóru þær í göngu um svæðið og enduðu í leikjum á fótboltavellinum.
Eftir útiveruna var komin tími á kaffi, á boðstólum var jógúrtkaka og bananabrauð sem sló alveg í gegn hjá stelpunum. Að kaffitíma loknum var farið í bænakonuleit þar sem herbergi þurftu að vinna saman til að finna sína bænakonu. Þær eru eldklárar og voru enga stund að finna sína bænakonu. Svo var frjáls tími fram að kvöldmat, og í matinn var besti fiskur í heimi, nefnilega Ölvers fiskur.
Eftir kvöldmat var kvöldvaka sem endaði svo í náttfatapartý, og þá var dansað svo mikið að húsið hristist. Að loknu náttfatapartý var fræðsla um Kristrúnu, sem stofnaði Ölver, og fengu stelpurnar að sjá myndir og fræðast um þessa frábæru og einstöku konu. Eftir fræðsluna voru ávextir í kvöldhressingu og síðan fóru stelpurnar í háttinn. Áttu þær svo góða stund með bænakonunni sinni inn á herbergi. Sumar bænakonur fóru með stelpunum í leiki áður en þær fóru að sofa, annars var spjallað um daginn og allar voru mjög ánægðar með daginn og spenntar fyrir komandi viku.
Minni á símatíma milli 18-19, síminn hjá Ölver er 4338860.
Takk fyrir að treysta okkur fyrir stelpunum ykkar, þær eru frábærar og við hlökkum mikið til að kynnast þeim betur og eiga góða viku hér saman.
Bestu kveðjur, Kristrún forstöðukona.