Stelpurnar vöknuðu eldhressar í morgun og voru alls ekki lengi að koma sér á fætur. Það var byrjað að fá sér morgunmat, eftir morgunmat var tiltekt og stelpurnar fengu tíma að búa um rúmin og gera allt fínt í herbergjunum sínum. Eftir tiltek var morgunstund þar sem var sungið og hlustað á sögu um systurnar Mörtu og Maríu. Að morgunstund lokinni var brennó og fyrstu leikirnir í æsispennandi brennó keppni fóru á stað.
Veðrið var aldeilis með okkur í liði í dag því það var bongóblíða, því var tilvalið að drífa sig út eftir hakk og spagettí sem var í hádegismat. Þá voru hinir stórkostlegu Ölversleikar á dagskrá þar sem stelpurnar leystu allskonar þrautir, meðal annars stígvélaspark, rúsínuspítt og furðuvera. Eftir Ölversleika var kaffitíminn tekinn úti og ákveðið að fara niður að Hafnará í góða veðrinu. Þar fengu stelpurnar að vaða og leika í læknum, allir skemmtu sér vel þó að lækurinn hafi verið ískaldur.
Þegar við komum aftur upp í Ölver fengu þær sem vildu að fara í pottinn. Þá var komið að kvöldmat og var ávaxtasúrmjólk í kvöldmatinn og brauð með. Eftir kvöldmat tók svo við skemmtileg kvöldvaka þar sem bæði stelpurnar og foringjar voru með skemmtiatriði. Kvöldinu var svo endað með einu stóru suprise-náttfatapartý þar sem stelpurnar skemmtu sér stórkostlega og að því loknu voru þær ekki lengi að sofna eftir þennan skemmtilega og viðburðaríka dag.
Bestu kveðjur, Kristrún forstöðukona.