Hingað komu 47 bullandi hressar stelpur í gær og 11 framúrskarandi starfsmenn auk mín.

Það var alveg augljóst strax og komið var út úr rútunni að hér voru á ferð kraftmiklar og jákvæðar stelpur sem gátu ekki beðið eftir ævintýrum vikunnar.

Í upphafi dvalar fengu allar stelpurnar smá kynningu á starfsfólki, húsakynnum og helstu reglum og svo var skipt í herbergi. Eins og venjulega fengu allar vinkonur að vera saman í herbergi og þegar þær voru búnar að koma sér vel fyrir í herbergjunum var boðið upp á hrært skyr og pítsubrauð í hádegismat.

Eftir hádegismat var farið í gönguferð um svæðið og ýmsa nafna- og samhristingsleiki og gekk mjög vel að hrista hópinn saman. Stelpurnar eru opnar fyrir að kynnast nýjum vinkonum og alveg til í öll verkefni sem lögð eru fyrir þær. Þess vegna var ekki eftir neinu að bíða og strax eftir kaffi fengu þær úthlutað efnivið fyrir Top Model keppni. Þar fengu herbergin það verkefni að útfæra búning á eina úr sínum röðum og eini efniviðurinn sem mátti nota var svartur plastpoki, bandspotti, límband og litir og svo hitt og þetta sem þær fundu í umhverfinu. Útkoman var svo sýnd við mikil fagnaðarlæti í matsalnum og alveg ljóst að hér eru margir hugmyndaríkir einstaklingar. Endilega kíkið á myndasíðuna okkar til að sjá meistarastykkin.

Eftir Top Model var boðið upp á brennó, vinabönd og perlur og stelpurnar úr Fjallaveri fengu aðstoð við að undirbúa atriði fyrir kvöldvöku.

Eftir KFC-fisk, kartöflur og grænmeti í kvöldmat héldum við hressandi kvöldvöku en í lok hennar ræddi ég aðeins við stelpurnar um þennan dýrmæta stað og starfsfólkið sem hér er og hversu mikilvægt það er að þær leyfi sér að njóta líka rólegu stundanna og drekka í sig þennan sérstaka anda vináttu og kærleika sem hér er allt umvefjandi. Allt er dýrmætt í Ölveri – ekki bara stuðið!

Svo…kom heldur betur upp vesen og vandræði. Meirihluti starfsfólksins týndist úti í skógi og því engar bænakonur í húsi eftir kvöldvöku til að hjálpa börnunum í háttinn. Það var ekki annað að gera en að fara að leita og jú, á endanum fundust bænakonurnar hingað og þangað um skóginn í líki furðuvera og seint og um síðir fengu öll herbergi sinn foringja til að spjalla við í lok dags, lesa skemmtilegar sögur, syngja og koma þeim í ró.

Ró var komin í húsið fyrir miðnætti sem er held ég bara met á fyrsta degi flokks með svona stórar og kraftmiklar stelpur. Það segir bara mikið um þennan mikla gæðahóp sem hér er staddur og ég get bara eiginlega ekki beðið eftir að eyða meiri tíma með þeim og kynnast þeim betur.

Ásta Sóllilja, forstöðukona.

Hér er hægt að sjá myndir frá gærdeginum.