Við vöknuðum eftir fyrstu nóttina í ekta Ölversroki og skýjuðu. Stefnan var sett á inniveru.

Stelpurnar höfðu allar sofið ljómandi vel og lengi og sumar áttu erfitt með að komast fram úr kl. 09:00. Eftir morgunmatinn og fánahyllingu hófst hefðbundin morgundagskrá. Morgnarnir í Ölveri eru alltaf eins. Vakið kl. 09:00. Morgunmatur 09:30. Fánahylling og tiltekt og frágangur í herbergjum til 10:30 og þá hefst morgunstund. Að lokinni morgunstund eða um 11:15 er svo brennó fram að hádegi.

Á morgunstundinni í gær lærðu stelpurnar sögu sumarbúðanna í Ölveri með áherslu á Kristrúnu Ólafsdóttur eða Kristrúnu í Frón, sem stofnaði og rak Ölver fyrstu áratugina af mikilli hugsjón og elju. Við í Ölveri eigum þrautseigju Kristrúnar mikið að þakka og gaman að geta frætt stelpurnar um lífsstarf hennar.

Eftir morgunstundina hófst svo hin æsispennandi brennókeppni sem verður keyrð áfram alla vikuna og endar með krýningu brennómeistara flokksins á lokadegi. Í hádegismat í gær fengu stelpurnar hakk og spagettí og eftir hádegi var blásið í Ölversleika! – Veðrið hafði snúist okkur í hag og öll innivera geymd til betri tíma. Skipt var í 5 lið í Ölversleikunum og fór fram hörð keppni í hinum ýmsu Ölversgreinum, svo sem rúsínuspýtti, sippi, stígvélasparki, jötunfötu, köngulóahlaupi og brekkuhlaupi. Allir tóku virkan þátt og því var kærkomið að koma inn í nýbakað og  notalegheit. Það er nefnilega alltaf nýbakað með kaffinu í Ölveri. 😊 Það er bara ekki hægt að dekra nóg við þessi börn!!

Eftir kaffi var opin dagskrá. Þessi hópur er ótrúlega opinn og jákvæður og gaman að gefa þeim tækifæri til að leika sér í frelsi og flæði og hafa gaman af þessum fallega stað og hvorri annarri. Við buðum upp á pottaferðir og blésum í hoppikastalann. Einhverjar spiluðu brennó og aðrar nutu sín við að mála steina, kríta á stéttina og hnýta vinabönd í sólinni. Allan tímann var gleði og góð stemmning!

Börn og foringjar í Ölveri voru auðvitað með hugann við CR7 og landsliðið okkar á Laugardalsvellinum og til að svala fótboltaþyrstum settum við að sjálfsögðu leikinn, Ísland-Portúgal upp á skjávarpa í stofunni rétt fyrir kvöldmat. Það hentaði ágætlega að það var píta í matinn svo matartíminn var bara frjálslegur. Þær sem vildu gátu fengið sér á disk og farið með matinn upp til að horfa. Hinar fengu sér á disk og borðuðu í næði í matsalnum.

Á kvöldvökunni horfðum við á vel undirbúin atriði frá stelpunum í Fuglaveri og Hamraveri og hlustuðum á Önnu Birnu, einn af okkar frábæru foringjum, lesa sögu úr bókinni Við Guð erum vinir. Svo fóru allar stelpurnar í háttinn eins og venjulega og foringjarnir fóru inn á herbergin til að koma stelpunum í ró… en sú ró stóð ekki lengi. Áður en langt um leið keyrðu aðstoðarforingjarnir okkar upp stemmninguna í húsinu með háværri danstónlist og hrópum og köllum. Það var komið náttfatapartý!!! – Við tók skemmtilegur klukkutími í kvöldvökusalnum með dansi og leikjum, leikritum, sögum og ís. Mikið var þetta gaman!

Allar sofnuðu sáttar og sælar um kl. 00:30 eftir langan og viðburðarríkan dag.

Við höfum blessunarlega fengið dálítinn vind með góða veðrinu. Áður fyrr hefði maður nú kannski ekki þakkað fyrir það en núna er það þakkarvert því á meðan blæs lætur lúsmýið okkur alveg í friði!