Stelpurnar fengu að sofa hálftíma lengur í gær til að bæta upp svefninn sem þær misstu vegna náttfatapartýsins daginn áður. Það var vel þegið. Enn ekkert lúsmý að pirra okkur. Ekki af því það er ekki hérna heldur af því vindurinn er enn að gleðja okkur. Er á meðan er.

Í öðrum fréttum er það að allt gengur vel. Á morgunstund í morgun lærðu stelpurnar söguna um týnda sauðinn – með áherslu á það hversu dýrmætar þær eru hver og ein. Hugleiðingin á kvöldvökunni var svo á sömu nótunum með sögunni Þú ert frábær. Boðskapur dagsins var því að leggja áherslu á virði þeirra sem einstaklinga. Þær eru allar dýrmæt sköpun Guðs og í sköpunarverkinu eru engin mistök!

Eftir hádegismat nýttum við góða veðrið og allar fóru með handklæði niður að á og fengu að busla að vild. Þegar þær komu heim var kaffitíminn borinn fram úti og eftirmiðdagurinn fór svo í pott, busl og gott tan-chill, auk þess sem við dróum fram slip n‘ slide brautina og hentum í góðan og fjörugan busl-tíma í sólinni.

Stelpurnar borðuðu svo vel af grjónagraut og brauði í kvöldmatnum og skemmtu sér konunglega á kvöldvöku þar sem Skógarver og Lindarver buðu upp á skemmtiatriði. Eftir kvöldvöku fórum við í ævintýraleik úti skógi. Ævintýraleikur í Ölveri er bara góður gamaldags eltingaleikur en með ævintýraþema. Þema leiksins var Hungurleikarnir og stelpurnar hlupu um allan skóg til að finna fígúrur úr sögunni eins og Primrose og Katniss Everdeen, Peeta og Effie á meðan þær forðuðust að vera klukkaðar af friðarliðum og Snow forseta. Eftir að leiknum var lokið og allir búnir að spretta vel úr spori kveiktum við eld í hjólbörum niðri í laut, grilluðum sykurpúða og skemmtum okkur saman í brekkusöng.

Mikið eru þetta skemmtilegir dagar með þessum frábæru stelpum. Þrír dagar búnir og tæpir fjórir dagar eftir og nægur tími fyrir fleiri ævintýri.