Dagurinn í gær var ekki lítið skemmtilegur! – Ég veit ég segi þetta eftir alla dagana en það er nú líka bara þannig. Það er bara alltaf svo gaman hjá okkur. 😊

Við byrjuðum daginn á hefðbundinni morgundagskrá. Á morgunstund ræddum við um mikilvægi þess að sýna náunganum kærleika og virðingu út frá dæmisögunni um miskunnsama Samverjann. Brennókeppnin hélt svo áfram úti í íþróttahúsi og að henni lokinni fengu stelpurnar kornflakes-kjúkling, grænmeti og kartöflur í ofni.

Eftir hádegismat var blásið í svokallaðan tuskuleik. Tuskuleikinn er kannski dálítið flókið að útskýra á blaði en í grunninn er þetta leikur þar sem stelpurnar fara um svæðið og leysa ákveðnar þrautir og á sama tíma eru foringjar á ferðinni að reyna að klukka þær og koma í veg fyrir að þær nái að klára leikinn. Það er alltaf svo geggjað gaman þegar börnin og foringjarnir gleyma sér saman í leik og það var sko mikið stuð í skóginum hjá okkur í leiknum.

Eftir kaffi, nýbakaða snúða og rice crispies kökur, kom svo rúta að sækja allan mannskapinn. Það vakti mjög mikla lukku!! Við fengum Hreppslaug til að opna fyrir okkur sundlaugina og höfðum hana útaf fyrir okkur í einn og hálfan tíma. Sundlaugin var hlý og notaleg og veðrið ljómandi gott þó að sólin hafi ekki skinið á okkur. Þarna áttum við góða og skemmtilega stund sem auðvitað lauk með ís fyrir alla eins og allar góðar sundferðir eiga að gera.

Eftir að heim var komið og stelpurnar höfðu fengið sér ávaxtasúrmjólk og brauð í kvöldmat fengu þær góðan tíma til að undirbúa dagskrárlið kvöldsins, en það var hæfileikakeppni! Þar sáum við leikrit, söngleik, dansatriði, söng og hljóðfæraleik. Dómararnir voru ekki af verri endanum en þau Bríet og Birigtta Haukdal, Daníel Ágúst og Herra Hnetusmjör tóku að sér dómgæsluna (eða foringjar í þeirra líki). Það er samdómaálit foringja að þetta hafi verið með betri hæfileikakeppnum síðari tíma. Það verður flókið að velja sigurvegara úr hópnum.

Eftir að hæfileikakeppni lauk var óvænt kaffihúsastemmning í kvöldkaffi. Boðið var upp á vöfflur og heitt kakó við kertaljós og kósýheit í matsalnum og allir fóru svo sælir að sofa eftir skemmtilegan dag.