Dagurinn í gær var mikill innidagur. Veðrið var ekki alveg að leika við okkur því þó það væri hlýtt þá var nokkur vindur og af og til blautt. Stelpurnar voru hálfpartinn búnar að vera að bíða eftir innidagskrá svo í gær létum við bara af því verða.

Á morgunstundinni lærðu stelpurnar dæmisöguna um talenturnar með áherslu á þann boðskap að allir hafa einhverjar gjafir sem geta verið nýttar til góðs. Það er á okkar ábyrgð koma auga á og virða þær gjafir sem okkur hafa verið gefnar, rækta þær og nýta vel. Eftir morgundagskrá og brennó var boðið upp á grænmetisbuff, kúskús og salat.

Dagskráin sem einhverjar höfðu beðið eftir var svo sett upp eftir hádegismat. Þá breyttum við húsinu í Hvergiland og af stað fór svokallaður Ævintýragangur. Foringjarnir brugðu sér í líki persóna úr ævintýrinu um Pétur Pan og stelpurnar voru leiddar í hópum um húsið með bundið fyrir augu og lentu í alls konar ævintýrum á leiðinni.

Eftir kaffi höfðum við ýmsar stöðvar í boði en gáfum líka mikinn frjálsan tíma. Stelpurnar drógu í gær leynivinkonur í leynivinaleik og vildu gjarnan fá tíma til að föndra og undirbúa gjafir fyrir sína leynivini. Þær fengu því að sinna því að vild en á sama tíma var boðið upp á brjóstsykursgerð í matsalnum og þar sem einn foringjanna okkar er hip-hop kennari og mikill söngleikjadansari buðum við upp á dans-workshop í kvöldvökusalnum. Í íþróttahúsinu var pílukeppni og brennó og Hlíðarver undirbjó leikritadagskrá kvöldsins.

Í kvöldmat var svo tortillahlaðborð með hakki og kjúklingi sem féll aldeilis í góðan jarðveg. Kvöldvakan var í styttra lagi svo til að búa til góðan tíma fyrir bíó-kósýkvöld!! Pétur-Pan var sett upp á skjá, og poppvélin okkar sett í gang. Allar fengu brjóstsykurspokana sína og komu sér vel fyrir í náttfötum með sængur og teppi í kvöldvökusalnum. Virkilega notaleg og skemmtileg stund og góð stemmnings sem myndaðist í húsinu.