Veisludagurinn gekk eins og í sögu. Við fórum í gegnum hefðbundna Ölversdagskrá um morguninn og á morgunstundinni fórum við yfir mikilvægi þess að byggja líf sitt á traustum grunni út frá sögunni um húsið á bjarginu og húsið á sandinum. Stelpurnar hlusta rosalega vel í þessum flokki þegar loksins er komin þögn í hópinn (það er oft mikið stuð).

Eftir pastasalat í hádeginu var öllum smalað út í skemmtilegan ratleik með þrautum og gátum. Góð leið til að efla herbergisandann á síðasta degi og allar skemmtu sér vel. Eftir kaffi ákváðum við svo að hafa opinn vinagang ásamt því að bjóða upp á pott og sturtu fyrir alla. Á opnum vinagangi bjóða stelpurnar öðrum herbergjum í heimsókn og bjóða jafnvel upp á einhverja góða dagskrá. Það var ýmislegt spennandi í boði sem bæði börn og foringjar nýttu sér eins og t.d. nudd og andlitsbað, krullur, bylgur og fléttur í hár, naglalökkun og sálfræðitímar. Það var rosalega skemmtilegt að sjá hversu margar nýjar vináttur hafa orðið til í þessum hóp og einhvern veginn hefur verið pláss fyrir alla þó þær séu eins ólíkar og þær eru margar.

Þegar klukkan sló sjö voru allar orðnar glæsilegar, ný sturtaðar og í sparifötum og jafnvel komnar með fínustu hárgreiðslur, naglalakk og annað fínerí. Í hátíðarkvöldverð var pítsa og ís í eftirrétt. Við fengum svo heimsókn eftir matinn frá einhverri dálítið skrítinni kattakonu sem var búin að týna öllum villiköttunum sínum í skóginum og stelpurnar fóru út og leituðu. Villikettirnir fundust, einmitt einn á mann (súkkulaði) og þær gæddu sér á því á meðan við foringjarnir borðuðum. Eftir kvöldmat var svo stórskemmtileg kvöldvaka í boði foringja með bráðfyndnum leikritum og skemmtilegum söng og sögum. Við tókum okkur svo góðan tíma inni á herbergjum með stelpunum í spjall og kósýtíma fyrir svefninn.

Í dag gekk vel að undirbúa heimför. Pökkun fór fram fyrir hádegi. Svo var stutt morgunstund þar sem við deildum appelsínum (hápunktum) og sítrónum (lágpunktum) vikunnar og fórum yfir mikilvægi þess að halda fast í þann lærdóm sem við fengum að njóta í Ölveri. Svo var það bara foringjabrennó og hádegisverður, lokastund með verðlaunaafhendingu og heimför!

Ég er alltaf jafn óendanlega þakklát eftir þessar vikur sem ég fæ að vera forstöðukona í Ölveri. Þakklát fyrir að vera treyst fyrir þessum stað og starfseminni sem þar fer fram, þakklát fyrir að vera treyst fyrir börnunum sem þangað koma og þakklát fyrir samstarfsfólk mitt sem leggur svo mikið á sig til að dvölin í Ölveri sé börnunum ánægjuleg. Við leggjum áherslu á að mæta öllum börnum af þolinmæði og kærleika og leggjum áherslu á að þau upplifi sig velkomin og að þau séu séð. Gleðin er ríkjandi í samskiptum okkar við krakkana sem koma til okkar í dvalarflokk og þannig vonum við að við náum að senda þau heim með bjartar og hlýjar minningar frá þessum frábæra stað sem hefur gefið okkur öllum svo margt.

Takk fyrir mig í þetta sinn.

Ásta Sóllilja, forstöðukona í 3. flokki 2023.