Það voru 47 hressar stúlkur sem mættu í Ölver sem tók á móti þeim í allri sinni dýrð, því rétt á meðan þær voru að ganga inn í hús og taka farangurinn sinn hætti að rigna og við sáum glitta í heiðan himinn… þó bara mjög stutt :o)
Farið var beint inn í matsal þar sem starfsfólk flokksins kynnti sig og fór yfir það helsta sem stúlkurnar þurfa að vita fyrir komandi daga. Því næst var þeim raðað niður á herbergin og fengu allar vinkonur að vera saman. Þegar allar voru búnar að koma sér fyrir var dinglað í hádegismat þar sem boðið var upp á dýrindis skyr og brauð.
Eftir hádegismatinn voru stúlkurnar spenntar að fara út og fá að skoða svæðið. Farinn var smá hringur og endað inni í íþróttahúsið þar sem rigningin var þvílík að ákveðið var að hafa nafnaleiki og fleiri leiki sem við förum oft í á fyrsta degi, þar inni. Rigningin stoppaði ekki stúlkurnar og vildu margar halda áfram að vera úti eftir að leikjunum lauk.
Í kaffitímanum fengum við súkkulaðiköku, brauðbollur og smákökur, og rann allt góðgætið ljúflega niður. Þegar allar höfðu borðað nægju sína var farið upp í kvöldvökusal þar sem tilkynna átti bænakonu hvers herbergis, en þegar þangað var komið var engin starfsmaður nema forstöðukonan mætt og hvergi var að finna einn einasta foringja eða aðstoðarforinga. Það var því bara eitt í stöðunni, allar í útfötin og herbergisfélagar sameinuðust í að fara út að leita að bænakonunum sínum. Voru það mikil gleði og hlátrasköll sem bárust um svæðið í þessari æsispennandi leit.
Í kvöldmatinn fengu stúlkurnar steiktafisk, kartöflubáta og salat og tóku þær vel til matar síns enda orðnar svangar eftir alla útiveruna.
Á kvöldvökunni var mikið sungið og tvo herbergi sýndu leikrit og voru með leiki. Það voru þreyttar stúlkur sem fóru niður úr kvöldvökusal og græjuðu sig fyrir svefninn eftir smá kvöldhressingu. Bænakonurnar sátu hjá þeim þar til allar voru komnar í ró og flestar sofnuðu um leið og þær lögðu höfuðið á koddann.
Brynja Vigdís, forstöðukona