Aðeins örlaði á heimþrá fyrstu nóttina en með öllum góðu ráðunum sem starfsfólk Ölvers kann, náðu allar að róa hug og hjarta og gekk nóttin með ágætum. Þær voru svo spenntar fyrir nýjum degi að flestar voru komnar á fætur á milli kl.07:30 – 8:00 til í daginn en áætlað var að vekja þær kl.09 :o)
Eftir hefðbundna morgundagskrá, sem inniheldur morgunmat, fánahyllingu og biblíulestur var komið að hinni æsispennandi brennókeppni. Brennókeppnin fer þannig fram að stúlkunum er skipt í 6 lið og keppa allir við alla, eins og sagt er. Í þessum flokki bera liðin nöfn persóna úr teiknimyndinni Encanto.
Heldur betur var vel borðað af grjónagrautnum sem var í hádegismatinn og gott að ná sér góða orku áður en gengið var niður að Hafnará þar sem var vaðið og sullað. Hver stúlka valdi sér svo fallegan stein til að mála síðar í dag og taka með heim til minningar um Ölvers dvölina. Stúlkurnar í flokknum eru ekki að láta sólarleysi og rigningu hafa áhrif á sig heldur elska útiveruna og dásamlegt er að fylgjast með þeim velja að klæða sig vel og vera úti í Ölversnáttúrunni.
Kanillengjur og súkkulaðikaka með smörkremi voru á boðstólum í kaffitímanum og þar sem við erum með afmælisstúlku í flokknum var sunginn afmælissöngurinn fyrir hana svo undirtók í húsinu.
Í Ölvers Topp – Model sýndu stúlkurnar hæfileika sína er þær sköpuð kjóla, veski, hárskraut og fleira úr ruslapoka, gúmmiteygjum og kaffipoka sem hvert herbergi fékk afhent. Einnig máttu þær nota ímyndunaraflið og finna í náttúrunni eitthvað sem þær gætu. Útkoman var ótrúlega skemmtileg og hvet ég ykkur til að skoða myndirnar sem settar eru inn úr flokknum.
Hakk og spagetti ásamt heimagerðu hvítlauksbrauði var í kvöldmatinn og var þetta besta hakka og spakk (eins og þær sögðu) sem marga stúlknanna höfðu fengið , já þið sjáið að hér er sko borðað fimm sinnum á dag og engin svangur í Ölver.
Hefðbundin kvöldvaka með söng, leik, leikritum og hugleiðingu var trufluð af dansandi foringum sem sögðu stúlkunum að fara niður í náttföt því nú skyldi skellt í náttfatapartý.
Eftir dúndrandi danspartý og ís-veislu fengu stúlkurnar smá ávaxtahressingu áður en þær græjuðu sig fyrir nóttina og bænó. Flestar voru fljótar að sofna enda þreyttar eftir langan viðburðaríkan dag.
Myndir úr flokknum má sjá hér https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720309360386
Brynja Vigdís, forstöðukona