Sprækar stúlkur mættu í morgunmat kl.09 og boðið var að venju upp á hafragraut, ceerios og konflex.  Fánahylling, biblíulestur og brennó allt eftir venju, og svo var komið að hádegismat hvar boðið var upp á dýrindis pastasalat og geggjaða sósu með.

Þegar við höfðum rétt klárað hádegismatinn hófst óundirbúin brunaæfing þegar kerfið fór í gang vegna flugu sem rataði ekki út úr reykskynjaranum og kveikti við það á kerfinu.  Vel gekk að tæma húsið og stóðu allar stúlkurnar sig mjög vel í þessum usla.

Hæfileikakeppni flokksins var fyrir kaffi og voru þar mörg frábær atriði sem boðið var upp á og greinilega miklir hæfileikar sem stúlkur flokksins búa yfir.

Í kaffitímanum voru hinar gómsætu Ölvers-brauðbollur, smákökur og tebollur.  Tók svo við pottur og sturtuferð fyrir veislukvöldverðinn, einnig var sett upp hárgreiðslu“stöð“ upp í kvöldvökusal og voru margar fallegar greiðslur sem gerðar þar.

kl.19 var hringt til veislukvöldverðar og var þá búið að skreyta matsalinn og gera kósý stemmingu fyrir stúlkunar sem mættu í sínu fínasta pússi til máltíðarinnar.  Boðið var upp á pizzur og var heldur betur tekið vel til matar síns.  Í eftirrétt fengu þær rice crispies.

Kvöldvaka á veisludegi var að venju mjög fjörug og sáu foringjar og aðstoðarforingjar um leikrit og önnur skemmtiatriði.

 

Dagur 5
Þegar þessi frétt er skrifuð var að ljúka foringjabrennó, en það þýðir að foringjarnir keppa við liðið sem vann brennókeppnina og svo annan leik við allar stúlkurnar.  Báru foringjarnir sigur úr bítum.

Allar eru búnar að pakka og búið að fara yfir óskilamuni.  Eitthvað af þeim gekk ekki út og farið verður með það sem eftir er á Holtaveginn (skrifstofu KFUM/K).

Verið er að gæja pylsur í hádegismatinn og að honum loknum er lokastund flokksins.

Nokkrar fara tönn, ja eða tönnum, fátækari heim og vorum við á tímabili að hugsa um að kalla þetta ekki leikjaflokk heldur tannlausa flokkinn.  Þar sem tannálfurinn kemur ekki í Ölver, fengu þær sem misstu, tönnina með sér í poka heim svo hann geti heimsótt þær þar.

Fyrir hönd allra starfsmanna vil ég segja hversu frábært hefur verið að fá að kynnast stúlkunum ykkar og megið þið vera virkilega stolt af þeim, allar til fyrirmyndar í framkomu og hegðun.

Sjáumst hressar að ári
Brynja Vigdís, forstöðukona

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720309360386/page1