Í Ölver er mættur fullur flokkur af sprækum stelpum og eðal starfslið auk mín.

Strax frá upphafi var jákvæður andi og spenningur yfir hópnum og voru þær fljótar að blanda geði við hvora aðra og kynnast.

Þegar komið var upp í Ölver var byrjað á því að kynna stelpurnar fyrir staðnum, húsakynnum og útisvæði, starfsfólki, helstu reglum o.fl. Skipt var í herbergi og pössuðum við að sjálfsögðu upp á það að vinkonur fengju að vera saman í herbergi. Stúlkurnar komu sér fyrir og síðan var boðið upp á hrært skyr og pizzabrauð í hádegismat og borðuðu þær vel.

Eftir hádegismat var farið í gönguferð um svæðið auk þess að brugðið var á leik með ýmsum nafna- og samhristingsleikjum. Stelpurnar tóku allar sem ein þátt með bros á vör og heiðraði sólin okkur með nærveru sinni.

Í kaffitíma var svo boðið upp á smurt brauð, hjónabandssælu og súkkulaðibitakökur sem voru enn volgar úr ofninum og vöktu þær mikla lukku!

Eftir kaffitíma var slegið til keppni milli herbergja til að hrista herbergin saman. Keppnin sem um ræðir köllum við Top Model en í þeirri keppni fá herbergin það verkefni að utfæra búning/“look“ á eina úr herberginu þar sem eini efniviðurinn sem þær hafa er einn svartur plastpoki, kaffipoki, gúmmíteygjur, bandspottar, það sem þær finna úti í náttúrunni og svo það sem þær höfðu með sér sjálfar. Þar reynir á hugmyndaflugið, sköpun, samvinnu og útsjónarsemi og sýndu stelpurnar ykkar það svo sannarlega að þær hafa allt þetta að geyma. Samvinnan var þvílík og hvergi bar á ósætti, allar spenntar og saman í liði við að vinna að meistaraverkinu. Útkoman var svo sýnd á tískusýningu við mikil fagnaðarlæti þar sem foringjarnir brugðu sér í hin ýmsu gerfi og mættu á staðinn sem kynnar og dómarar. Endilega kíkið á myndasíðuna okkar til að sjá þessi meistaraverk sem stelpurnar göldruðu fram. Neðst í fréttinni er hlekkur á myndasíðuna.

Eftir Top Model gafst tími fyrir frjálsan tíma þar sem stelpurnar gátu farið út að leika í góða veðrinu, kynnst betur, lært að gera vinabönd o.fl. auk þess fengu stelpurnar úr Skógarveri aðstoð við að undirbúa atriði fyrir kvöldvöku en hér í Ölveri skipta herbergin með sér kvöldunum þar sem þær sjá um að skemmta hinum stelpunum með leikritum og leikjum á kvöldvöku.

Í kvöldmat var boðið upp á fisk, kartöflubáta og grænmeti. Í framhaldi af kvöldmat var haldið á kvöldvöku. Eins og áður sagði var það Skógarver sem sá um skemmtiatriði en í lokin ræddi ég við stelpurnar um þennan dýrmæta stað sem við eigum, hvað það er sem Ölver stendur fyrir, aðeins um það hverju þær mega eiga von á í vikunni og mikilvægi þess að sýna hvorri annarri kærleika og leyfa sér að upplifa líka friðinn og rónna sem staðurinn hefur upp á að bjóða.

Í Ölveri ríkir sú hefð að hvert herbergi fær sína bænakonu, þ.e. sinn foringja sem fer inn í herbergi til þeirra öll kvöld, fer í leiki, spjallar við þær, segir skemmtilegar sögur, syngur og hjálpar þeim að koma sér í ró. Þegar kom að háttatíma var þó allt starfsfólkið meira og minna horfið… Svo það var jú lítið annað í því að gera en að fara að leita. Stelpurnar fóru því á flakk út í skóg og jú, bænakonurnar fundust ein af annarri, faldar á víð og dreif um skóginn í líki hinna ýmissu furðuvera og fylgdu þær að lokum sínum stelpum aftur inn í hús og inn í þeirra herbergi til að eiga notalega stund fyrir svefninn.

Mikil spenna var í hópnum og eftir skemmtilegan dag voru það sáttar og sælar stúlkur sem lögðust á koddann. Ekki bar á heimþrá og voru stúlkurnar ótrúlega duglegar að fara að sofa og var komin ró í húsið um miðnætti. Það er ótrúlega góður andi í hópnum og ég get ekki beðið eftir að kynnast þeim betur og sigla inn í fleiri ævintýri með þeim út vikuna.

Unnur Rún, forstöðukona.

Hér er hægt að sjá myndir frá gærdeginum.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720309520907/with/53021076644/