Það mættu 43 hressar og spenntar stelpur hingað í Ölver í hádeginu. Um þriðjungur þeirra hefur komið hingað áður sem þýðir að meiri hlutinn er að koma í fyrsta skiptið. Við byrjuðum á því að skipta stelpunum í herbergi og pössuðum upp á að allar vinkonur væru saman. Það eru 6 stúlknaherbergi hér sem öll enda á – ver, á efri hæðinni eru Fjallaver og Fuglaver og á neðri hæðinni Skógarver, Lindarver, Hlíðarver og Hamraver.
Í hádegismat var skyr og pizzabrauð, eftir mat var farið í gönguferð um svæðið og leiki. Stelpurnar undu sér vel í frjálsum tíma fram að kaffi þar sem var heimabakað bananabrauð og súkkulaðibitakökur.
Eftir kaffi fóru stelpurnar út í skóg að leita að sinni bænakonu, en allar höfðu þær falið sig á svæðinu og stelpurnar þurftu að finna þær. Hvert herbergi er með sína bænakonu en hún ber sérstaka ábyrgð á því herbergi, hún les svo sögu og biður bænir með sínu herbergi fyrir svefninn.
Eftir það voru þrjú herbergi sem gerðu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna og frjáls tími sem flestar nýttu til útiveru.
Í kvöldmat var kentucky fiskur og kartöflubátar og eftir kvöldmat var svo kvöldvaka með skemmtiatriðum og söng. Hver kvöldvaka endar svo með hugvekju sem fjallaði um Kristrúnu Ólafsdóttur sem stofnaði Ölver. Hún var ótrúleg kona sem með þrautsegju, útsjónarsemi og heitri trú á Guð stofnaði Ölver og hélt áfram að vinna að uppbyggingu hér fram á sinn síðasta dag.
Eftir kvöldvöku var boðið upp á ávexti, áður en var háttað og burstað. Bænakona kom svo inn á herbergi og endaði daginn með sínu herbergi
Núna rétt fyrir miðnætti er komin ró í húsið og lang flestar sofnaðar.
Á morgun koma svo inn myndir á myndasíðuna
Bestu kveðjur Erna Björk Harðardóttir, forstöðukona