Það gekk mjög vel hjá flestum að sofna í gær, þrátt fyrir að vera sjö eða átta saman í herbergi og á nýjum stað. Einhverjar voru vaknaðar fyrir klukkan 06:30 í morgun en aðrar voru alls ekki tilbúnar að vakna þegar vakið var fyrir klukkan 08:30. Morgunmatur var svo á sínum stað, morgunkorn og hafragrautur. Eftir morgunmat er svo alltaf fánahylling og sunginn fánasöngur, eftir hana gefst stelpunum rúm til að taka til í herbergjunum sínum áður en morgunstundinn hefst. Á morgunstundinni í morgun lærðu stelpurnar um Biblíuna og hvernig hún getur verið vegvísir, þá lærðu þær að fletta upp í Nýja Testamentinu. Við syngjum mikið og stelpurnar búnar að læra Ölverssöngva eins og Ölver í faðmi fjalla, Gefðu Jesú Kristi æskuárin þín og Brátt af stað brunar lest.
Eftir morgunstund var svo brennókeppni og svo hádegismatur þar sem boðið var upp á hakk og spaghetti og tóku þær vel til matar síns. Eftir mat fóru allar í gönguferð niður að á að busla og leika, þær komu svo beint heim kaffitíma þar sem boðið var upp á skinkuhorn og súkkulaðiköku, við sungum svo afmælissöng fyrir eina sem fagnar 9 ára afmælinu sínum með okkur hér í Ölver.
Eftir kaffi voru svo hinir sívinsælu Ölversleikar þar sem keppt er í stígvélasparki, rúsínuspýtingum, brosi, jötunfötu og fleiru. Við fengum svo mæðgur í heimsókn sem allar spila á fiðlu og áttum saman með þeim skemmtilega söngstund.
Núna er svo undirbúningur fyrir kvöldvöku í fullum gangi, þrjú herbergi sem ætla að skemmta okkur hinum og svo er einhverjar í heitapottinum.
Það hefur í heildina gengið einstaklega vel með þennan hóp, þær eru duglegar að leika saman og passa upp á og virða hver aðra. Það hefur lítið sem ekkert borið á heimþrá, enda dagskráin þétt og við að verða hálfnuð með flokkinn.
Hér má sjá myndir úr flokknum
Bestu kveðjur Erna Björk