Það voru 35 spenntar stelpur sem mættu upp í Ölver í morgun og þar beið sólin eftir okkur. Það var byrjað á því að raða í herbergin og fengu allar að vera með vinkonum sínum. Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér vel fyrir í herbergjunum sínum var hádegismatur, í matinn var skyr og pizzabrauð. Eftir hádegismat var farið í göngu um svæðið og fengu stelpurnar að heyra söguna um Dísu tröllskessu sem býr í fjöllunum fyrir ofan Ölver, gangan endaði á fótboltavellinum þar sem farið var í leiki. Þegar klukkan var orðin hálf 5 var tími fyrir kaffi þar sem stelpurnar fengu nýbökuð skinkuhorn og jógúrtköku, sem var afar vinsælt enda stelpurnar svangar eftir mikla útiveru. Að kaffi loknu var farið í Top model keppni og tískusýningu þar sem stelpurnar fengu ruslapoka, teygjur og gúmmíhanska til að klæða upp sitt módel. Stelpurnar voru afar hugmyndaríkar og þetta var glæsileg tískusýning.

Í kvöldmatinn var svo kentucky fiskur og kartöflubátar, eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem var sungið og farið í leiki. Við vorum líka svo heppnar að fá Ölver stelpuna Emblu í heimsókn, Embla er að fara gefa út bókina stelpur stranglega bannaðar hún kom og kynnti bókina og las kafla fyrir okkur. 

Að kvöldvöku lokinni var bænakonuleit þar sem stelpurnar leituðu af sinni bænakonu. En öll herbergin eru með eigin bænakonu sem ber sérstaka ábyrgð á því herbergi og les sögur og biður bænir fyrir svefnin. 

Takk fyrir að treysta okkur fyrir stelpunum ykkar, þær eru frábærar og við hlökkum mikið til að kynnast þeim betur og eiga góða viku hér saman

Bestu kveðjur, Kristrún forstöðukona