Í morgun fengu stelpurnar að sofa út, öllum til mikillar gleði. Enda allar vel þreyttar á síðasta heila deginum hér í Ölver. Dagurinn byrjaði með hefðbundnum hætti og í morgunstund var talað um bænir og voru stelpurnar með í að búa til bæn. Svo fóru þær í brennó og strax eftir brennó var grjónagrautur í hádegismat og kláraðist hann alveg upp til agna.
Svo eftir hádegismat var farið í stórskemmtilegan leik sem kallast tuskuleikurinn. Hann virkar þannig að stelpurnar vinna að því að leysa þrautir og er leikurinn einstaklingskeppni. Þær fá síðan strik á handarbakið ef þær ná að leysa þrautina. En það er ekki allt og sumt, heldur eru foringjar að elta og geta þurrkað af þeim strik með tusku, s.s. “tuskur” að elta. Tuskurnar sýna enga miskunn og erfitt getur verið að halda strikum eftir að hafa leyst þrautir.
Eftir tuskuleikinn var kaffitími og var þar boðið upp á pítsasnúða og kanilköku og síðan var kominn tími á að gera sig fínan fyrir veisludag. Þá fóru allar í sturtu og þær sem vildu fóru í pottinn. Svo fengu allar fastar fléttur og fóru í hrein föt og boðið var í veislukvöldmat. Í veislukvöldmat voru hamborgarar og franskar. Svo í eftirrétt var rice krispies og voru stelpurnar heldur betur sáttar með það.
Svo var komið að veislukvöld vöku og þá sjá foringjar um skemmtiatriði og sýndu nokkur leikrit. Stelpurnar hlógu mikið að fíflalátunum í foringjunum og fengu meira að segja popp með.
Svo fóru þær að hátta og áttu góða síðasta kvöld með bænakonuni sinni.
Minni á að rútan fer á morgun frá Ölver kl 14 og við verðum mættar í bæinn um 15 🙂
Bestu kveðjur, Kristrún forstöðukona