Stelpurnar voru vaktar klukkan 9 í morgun, hressar og tilbúinar í daginn. Þær byrjuðu á morgunmat og fóru svo á fánahyllingu, eftir það gerðu þær herbergin sín fín, en á meðan dvöl þeirra stendur er keppni í gangi um bestu hegðunina og hreinustu herbergin. Því næst var kominn tími á biblíulestur þar sem við sungum saman og stelpurnar fengu að heyra um Kristrúnu, konuna sem stofnaði Ölver.
svo var komið að brennókeppni og hádegismat þar sem dýrindis grænmetisbuff runnu ljúft niður. Veður blíðan var nýtt í gönguferð niður að læk þar sem stelpurnar fengu að vaða og finna steina til að taka með sér til baka, stefnan er svo að mála steinana á morgun og skreyta með þeim hér fyrir utan. Eftir kaffi leiruðu stelpurnar myndaramma og skelltu sér svo í heitapottinn. Í kvöldmat var hakk og spagettí sem stelpurnar tóku vel í, á kvöldvökunni voru svo tvö herbergi að sýna leikrit og leiki sem vakti mikla lukku.
Nú færist ró yfir húsið er stelpurnar sofna hver á eftir annari.
Heimþráin hefur aðeins látið á sér bera en hér er flott starfsfólk sem tæklar svona hluti vel.

Bestu kveðjur,
Guðbjörg forstöðukona