Það voru 47 dásamlegar og kraftmiklar stúlkur sem mættu hingað upp í Ölver í dag tilbúnar í ævintýrin sem framundan eru. Við byrjuðum á að safnast saman inn í matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig, farið var yfir nokkur mikilvæg atriði og helstu reglur og síðan var þeim raðað niður í herbergi. Eftir hádegismatinn, skyr og pizzabrauð sem rann ljúft niður, var farið í göngu um svæðið til að kynnast því betur og farið var í hópeflisleiki í rigningu og sól til skiptis.
Eftir kaffitímann, köku og ljúffengar heimabakaðar Ölversbollur, fóru stelpurnar í Top model keppni þar sem herbergin unnu saman að því að nota ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn og skreyttu einn herbergisfélagann með efni sem þeim var útvegað en þær máttu einnig fara út og finna efni úr náttúrunni. Úr urðu stórkoslegir búningar sem sýndir voru á tískusýningu við mikinn fögnuð og framandi dómarar kíktu í heimsókn.
Síðan var haldið í heita pottinn fyrir þær sem vildu, aðrar voru að dunda sér við að gera vinabönd eða úti að leika (rétt sluppu samt við haglél!)
Í kvöldmat var steiktur fiskur sem þær borðuðu mjög vel af. Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem foringjarnir sýndu leikrit og mikið var sungið og hlegið. Þá hófst leitin af bænakonunum sem fundust ein af annarri úti í skógi.
Nú er að færast ró yfir húsið. Dagurinn hefur gengið ótrúlega vel, þetta er frábær hópur og lofar byrjunin mjög góðu. Fleiri fréttir koma svo annað kvöld.
Kærar kveðjur úr Ölveri
Erla Björg Káradóttir forstöðukona