Það voru rúmlega 30 dásamlegar og kraftmiklar stelpur sem mættu í Ölver í dag tilbúnar í ævintýrin sem framundan eru. Við byrjuðum á að safnast saman inn í matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig, farið var yfir nokkur mikilvæg atriði og helstu reglur kynntar. Síðan var raðað niður í herbergi svo allar væru sáttar.
Eftir hádegismatinn, skyr og pizzabrauð sem rann ljúft niður, var farið í göngu um svæðið til að kynnast því betur ásamt því að fara í nafna- og hópeflisleiki.
Í kaffitímanum var boðið uppá skinkuhorn, bananabrauð og jógúrtköku. Eftir kaffi spreyttu stelpurnar sig i hinum ýmsu greinum á Ölversleikunum og síðan var frjáls tími fram að kvöldmat.
Í kvöldmat voru fiskibollur og kartöflubátar auk grænmetis.
Kvöldvakan er fastur liður og var mikið sungið. Foringjarnir sýndu tvö leikrit við mikinn fögnuð. Þegar kom að kvöldkaffi skiluðu foringjarnir sér ekki i matsalinn svo það var ekkert annað að gera en að fara út að leita. Þeir höfðu þá skellt sér í búninga og falið sig. Allir fundust að sjálfsögðu og höfðu herbergin þá fundið sína bænakonu.
Nú er allt að komast í ró og það voru sáttar og sælar stelpur sem lögðust á koddann spenntar fyrir ævintýrum næstu daga.
Bestu kveðjur úr Ölveri
Svava Sigríður Svavarsdóttir
Forstöðukona