Dagurinn hófst á hefðbundinn hátt. Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt var komið að morgunstund. Þar voru sungin lög og sálmar og lesin saga um fyrirgefningu. Eftir brennó var komið að hádegismat, pastasalat ásamt brauði með salami.


Veðrið lék við okkur i dag þegar við fórum í gönguferð niður að læk. Þar gátu þær sem vildu vaðið og buslað í læknum við mikla kátínu. Þegar til baka var komið voru móttökurnar ekki af verri endanum. Kaffitíminn var úti, Ölvers sætabollur og skúffukaka. Eftir frjálsan leik var boðið uppá kókoskúlugerð og heitan pott.

Gleðin var allsráðandi þegar stelpurnar voru að gera sig til fyrir veislukvöldverðinn, allar voru svo sparlega og fínar. Þegar stelpurnar mættu í kvöldmat var búið að skreyta salinn. Í matinn voru pizzur og þjónuðu foringjar til borðs. 

Á veislukvöldvöku voru mörg lög sungin og komið var að foringjum að vera með leikrit. Stelpurnar skemmtu sér vel og höfðu gaman. 

Á morgun er heimferðadagur en dagskráin þétt engu að síður og því ekki seinna vænna að fara að hvíla sig eftir annasaman dag.

Hlýjar kveðjur úr Ölveri 

Svava Sigríður Svavarsdóttir 

Forstöðukona