Í gær komu 34 eldhressar og skemmtilegar stelpur á aldrinum 12-14 ára í Ölver. Þetta er ekki alveg fullur flokkur og því rúmt um stelpurnar og ekkert mál að raða þannig í herbergi að öllum líði vel og séu með sínum vinkonum.
Þegar búið var að fara yfir helstu reglur staðarins og raða í herbergi var boðið upp á skyr og pítsubrauð í hádegismat. Eftir hádegismatinn var svo farið í gönguferð um svæðið og stelpurnar kynntar fyrir helstu leiksvæðum og ævintýramöguleikum. Það hélst nokkurn veginn þurft á meðan gangan var og því var ekkert því til fyrirstöðu að enda hana á fótboltavellinum í nafnaleikjum og samhristingi. Við starfsfólkið vorum sammála um að þessi hópur lofaði mjög góðu. Þær eru hressar og jákvæðar og mjög móttækilega fyrir allri dagskrá. Við erum mjög spenntar að eyða tíma með þeim.
Eftir kaffi, bananabrauð og jógúrtköku, kom rigningin. Þá settum við af stað Top model keppni þar sem hvert herbergi valdi eitt módel og skreytti það í samræmi við fyrirfram ákveðin skilyrði. Þær fengu ákveðinn efnivið frá okkur og máttu svo nota það sem þær fundu i náttúrunni og í farangri sínum. Úr varð svo hin fínasta tískusýning og greinilega að samvinnan skilaði góðri afurð í öllum herbergjum. Við tók svo frjáls tími. Potturinn var opin og vinabanda og perlustöðvarnar. Sumar gripu í spil og stelpurnar í Lindarveri undirbjuggu atriði fyrir kvöldvökuna.
Í kvöldmat fengu stelpurnar dýrindis Ölversfisk (fisk í raspi), steiktar kartöflur, kokteilsósu og grænmeti. Þær borðuðu mjög vel og fóru svo saddar og sælar á kvöldvöku.
Eftir kvöldvöku fóru þær svo allar niður að fá ávexti og fara að hátta og bursta. Þá var aldeilis uppi fótur og fit enda voru allir foringjarnir týndir og engin merki um þá nema einn sokkur af hverri sem hengdur hafði verið upp í herbergjunum. Herbergin fengu þá það verkefni að finna þann foringja sem var með hinn sokkinn. Þær þurftu því að hlaupa út um allan skóg og allt hús og það tók nú alveg dágóðan tíma að finna nokkra vel valda, eða falda, foringja. Foringinn með samsvarandi sokk var bænakona herbergisins og þá var ekkert að vanbúnaði að fara bara í „hátt og burst og piss“ eins og það heitir hér.
Stelpurnar sofnuðu vel og fengu góðan nætursvefn og eru núna tilbúnar í dagskrá dagsins, sem verður að hluta til úti og að hluta til inni. Við vitum að veðrið mun ekkert endilega leika við okkur í þessum flokki en við erum harðákveðnar í því að stemmningin verði þá bara þeim mun betri og hlökkum til að gera ævintýri úr hverjum degi. Í rigningunni í dag ætlum við til dæmis að leika með vatnsblöðrur og renna okkur í slip n‘ slide. Meira um það á morgun.
Endilega kíkið á myndasíðuna okkar og fylgist með stuðinu! Myndirnar má finna hér á þessum hlekk.
Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, forstöðukona.