Í gær vöknuðu stelpurnar við hressandi tónlist kl. 09:00 og höfðu allar bæði sofnað vel og sofið vel. Við tók hefðbundin morgundagskrá. Boðið var upp á kornflex, serjós og hafragraut í morgunmat. Að morgunmatnum loknum fóru allar á fánahyllingu og að henni lokinni fengu þær tíma til að taka til í herbergjunum sínum.
Í Ölveri er hegðunarkeppni í gangi allan flokkinn á milli herbergja. Stelpurnar fá stjörnur einu sinni á dag þar sem tekið er tillit til hversu vel gekk að koma á ró að kvöldi og hversu vel þeim gengur að taka til í herbergjunum sínum. Það er oft mikill metnaður í þessari keppni og gaman að fylgjast með þeim reyna að standa sig í þessu. Í þessum flokki verður baráttan um fyrsta sætið hörð því þetta eru bæði rólegar og duglegar stelpur og stjörnugjöfin eftir því. Það verður mjótt á munum í lok viku býst ég við.
Eftir tiltekt tók við morgunstund sem við í Ölveri köllum Biblíulestur. Á morgunstund gærdagsins var farið yfir sögu Ölvers sem er samofin sögu Kristrúnar Ólafsdóttur sem hóf starfið hérna árið 1952 og leiddi það meira og minna allar götur til 1993 þegar hún lést og ánafnaði Ölveri veraldlegar eigur sínar. Við erum þakklát fyrir þennan merkilega frumkvöðul og kraftakonu og höldum minningu hennar á lofti með þessum hætti í öllum flokkum.
Eftir morgunstundina hófst brennókeppni flokksins og var mikill hiti í kolunum niðri á íþróttavelli þegar fyrstu leikir vikunnar voru spilaðir.
Í hádegismat var boðið upp á hakk og spagettí. Eldhússtarfsfólkið okkar er svo duglegt að gera góðan mat og stelpurnar borðuðu mjög vel. Á dagskrá eftir hádegið voru svo vatnsblandaðir Ölversleikar.
Ölversleikar er íþróttakeppnin í Ölveri þar sem oft er keppt í mjög óhefðbundnum íþróttagreinum eins og stígvélasparki og rúsínuspýti. Þessa vikuna ákváðum við bara að í stað þess að bölsótast yfir veðrinu myndum við nýta það til ævintýra. Allar fóru í pollagalla og skipt var í lið eftir herbergjum. Svo var keppt í slip‘n slide, vatnsblöðrukasti, balasulli og fleiri skemmtilegum greinum. Þurrkarinn og snúrurnar fengu að vinna fyrir kaupinu sínu þennan daginn og allir enduðu þurrir og hressir eftir útiveruna í kaffitímanum.
Í kaffinu voru nýbakaðar og ilmandi ostaslaufur og norsk skúffukaka. Svo tók við innitími i rólegheitum eftir allt útibrasið. Pottur og sturtur voru opnar, við settum af stað hárgreiðslukeppni og trölladeigsföndur og sumar völdu að hnýta vinabönd eða spila.
Eftir kvöldmatinn, sem var grænmetisbuff og kúskús, buðu stelpurnar í Fjallaveri upp á atriði á kvöldvöku. Eftir kvöldvökuna fóru stelpurnar bara í „hátt, burst og piss“ og inn á herbergi með sinni bænakonu. Við settum svo á svið smá leikrit sem leiddi til þess að það þurfti að kalla allar stelpurnar fram í matsal í alvarlegt hópsamtal við forstöðukonu því einn sími var horfinn úr foringjahópnum og búið að snúa öllu við og hann fannst ekki. Áður en samtalið gekk þó of langt og varð of alvarlegt komu foringjarnir allir stríðsmálaðir inn í matsal í náttfötum. Síminn var á sínum stað, allt í plati, EN ÞAÐ VAR KOMIÐ NÁTTFATAPARTÝ.
Eftir mikinn dans og sprell, leikrit, ís og skemmtilegar sögur lögðust stelpurnar sælar og sáttar á koddann og sofnuðu allar á örfáum mínútum. Ró var komin í húsið klukkan eitt og allir fengu að sofa klukkutíma lengur í morgun til að vinna aðeins niður þreytuna.
Ekki gleyma að kíkja á myndirnar á myndasíðunni okkar!
Ásta Sóllilja, forstöðukona.