Dagurinn í gær byrjaði á „opnum morgunmat“ á milli 09:30 og 10:30 og enginn var vakinn fyrr en klukkan 10:00. Það var mjög notalegt að byrja daginn aðeins rólega í þetta skiptið og þær voru þakklátar fyrir svefninn. Dagurinn hélt svo áfram eins og aðrir dagar með fánahyllingu, morgunstund og brennó.
Eftir hádegismatinn, pítur með skinku og grænmeti, fóru allar í göngutúr. Við fórum út fyrir svæðið og meðfram fjallinu þar til við komum að fallegri laut þar sem farið var í leiki. Veðrið hékk þurrt mest allan tímann og það var gott að fá útveruna og hreyfingu.
Í kaffinu var boðið upp á brauðbollur og skúffuköku með dásamlegu smjörkremi. Það var afmælisbarn í flokknum sem að sjálfsögðu fékk extra skreytta köku, kórónu og afmælissöng frá hópnum.
Í lok kaffitímans mættu tveir foringjar í hundfúlu skapi. Þær kvörtuðu yfir að þurfa að vera hér í þessari rigningu. Það væri hundleiðinlegt í Ölveri, þær ættu engin þurr föt lengur, mættu aldrei vera inni í kósý og þær vildu ráða hvað yrði gert. Þetta var auðvitað allt í miklu gríni og stelpurnar hlógu að þeim en ég bauð þeim að koma með uppástungu um hvað þær vildu gera. Þær stungu upp á bíó og poppi. Ekkert mál að verða við því!!! Bíó og popp skyldi það vera og hópurinn fór allur upp í sal, sumir með sængina sína, og við komum okkur fyrir í alvöru kósý og horfðum á klassísku unglingamyndina Clueless saman. Eftir bíóið var svo boðið upp á pottinn, perluvinabandagerð og tvö herbergi æfðu atriði fyrir kvöldvöku. Í kvöldmat var Ölversgrjónagrautur og brauð við góðar undirtektir.
Eftir skemmtilega kvöldvöku þar sem bæði voru sýnd atriði og einn af foringjunum sagði söguna „Þú ert frábær“, fór heldur betur ævintýri af stað. Búið var að breyta Ölveri í ævintýraveröld og hergin voru leidd eitt af öðru á milli herbergja með bundið fyrir augun þar sem þær hittu hinar ýmsu ævintýrapersónur svo sem sjórængingja, draug, sveitastelpu og ýmislegt annað. Allir enduðu svo í allherjar bingópartý í matsalnum.
Það gengur ótrúlega vel með þessar flottu stelpur og er virkilega gaman að kynnast þeim. Lítið hefur borið á heimþrá og almennt semur öllum vel og virðast una sér vel hvort sem er í frjálsum eða skipulögðum leik. Það eru forréttindi að fá að vera hér og vera treyst fyrir þessum hóp.
Ásta Sóllilja, forstöðukona.